Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Góð mæting á vinnustofu Chris

28.08.2019

Í gærkvöldi fór fram vinnustofan „Hvernig hjálpa ég barninu mínu að blómstra í íþróttum?“ í Háskólanum í Reykjavík sem ætluð var foreldrum barna í íþróttum. Chris Harwood prófessor í íþróttasálfræði við háskólann í Loughborough stýrði vinnustofunni en hún var haldin í samvinnu Háskólans í Reykjavík (HR), Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ).

Chris Harwood er höfundur efnisins 5 C´s en C-in standa fyrir skuldbinding, sjálfsstjórn, samskipti, einbeiting, sjálfstraust (commitment, control, communication, concentration, confidence). Hugmyndin snýr að því byggja upp einstaklinginn með því að þjálfa andlega þætti samhliða líkamlegri þjálfun og efla þjálfara og foreldra í því að hafa áhrif á þessa þætti. Að mörgu leyti svipar hugmyndafræðin mjög til verkefnis Sýnum karakter sem er á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ). Chris Harwood fór yfir það hvernig hver þáttur fyrir sig hjálpar einstaklingnum til þroska. Hann lagði áherslu á að börnin ættu að fá að vera í íþróttum á sínum forsendum en ekki á forsendum foreldranna og að það næði enginn einstaklingur alla leið á toppinn nema að hafa viljann til þess sjálfur. Hlutverk foreldra í íþróttastarfi ætti ekki að snúast um áherslu á árangur heldur að barnið þroskist sem einstaklingur á vegferð sinni, með C-in fimm að leiðarljósi. Hann endaði á að varpa fram nokkurum spurningum til foreldra um hvernig þeir gætu unnið út frá hugmyndafræðinni um C-in fimm.

• Hvernig hagar þú þér sem foreldri á æfingum og á leikjum?
• Hvaða gildi og væntingar hefur þú sem foreldri? Samræmast þínar væntingar, væntingum barnsins?
• Hvernig er orðfærið þitt og samskipti?
• Hvernig er samband þitt við þjálfarann?

Yfir 200 manns fylltu salinn í HR.

Myndir með frétt