Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
13

ÍSÍ og Tama City Tokyo undirrita viljayfirlýsingu

23.08.2019

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur undirritað viljayfirlýsingu (Memorandum of understanding) við Tama City Tokyo og Kokushikan háskólann sem snýr að æfingaaðstöðu fyrir íslenska hópinn sem tekur þátt í Ólympíuleikunum í Tókýó 2020.

Tama City Tokyo er sveitarfélag í vesturhluta Tokyo svæðisins, en um 150 þúsund manns búa þar og er sveitarfélagið 21 ferkílómeter að stærð. Nokkrir stórir háskólar eru staðsettir innan sveitarfélagsins og er Kokushikan háskólinn einn af þeim stærri.

Viljayfirlýsingin felur í sér að Tama City Tokyo og Kokushikan háskólinn munu bjóða æfinga- og gistiaðstöðu fyrir íslenska hópinn í aðdraganda Ólympíuleikanna 2020 og verða þannig aðsetur íslenska hópsins. Þá munu allir aðilar stefna að því að auka samvinnu og samskipti sín á milli bæði í aðdraganda leika, á meðan þeir standa yfir og að þeim loknum. Ágætis íþróttaaðstaða er í borginni og á háskólasvæðinu og nálægð borgarinnar við mannvirki Ólympíuleikanna gefur íslenska hópnum fjölmörg tækifæri til þess að bæta enn frekar undirbúning og aðlögun. Hafa ber í huga að níu klukkustunda tímamismunur er á milli Íslands og Japans og íslenskir þátttakendur eiga langt ferðalag fyrir höndum.

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sagði við þetta tilefni: „Tæpt ár er í að Ólympíuleikarnir fari fram Í Tókýó og þótt að margt sé óljóst með stærð íslenska hópsins þá er nauðsynlegt að tryggja aðstöðu fyrir okkar keppendur þannig að þeir geti staðið sig vel á leikunum. ÍSÍ er afar þakklátt fyrir stuðning Tama City og Kokushikan háskólans gagnvart undirbúningi íslenska hópsins, en hann skiptir verulega miklu máli í aðdraganda leikanna.“

Undirritunin átti sér stað í íslenska sendiráðinu í Tókýó, en íslenska sendiráðið hefur verið ÍSÍ innan handar varðandi fjölmargt í undirbúningi Ólympíuleikanna.

„Þetta er ákaflega ánægjulegur áfangi“ sagði Elín Flygenring, sendiherra Íslands í Japan. „Tama borg hefur einnig sýnt áhuga á víðara samstarfi við sendiráðið um íslenska landkynningu í Japan. Tama borg og Kokushikan háskóli eiga án efa eftir að taka ákaflega vel á móti íslenska hópnum.“

Viljayfirlýsinguna undirrituðu þau Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Hiroyuki Abe, borgarstjóri Tama City og Hideo Osawa, stjórnarformaður Kokushikan háskólans en auk þeirra voru meðal annars viðstödd þau Elín Flygering, sendiherra Íslands í Japan og Halldór Elís Ólafsson frá íslenska sendiráðinu, Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og Örvar Ólafsson, verkefnastjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ.