Samstaða og kraftur kvenna
Árið 1990 var fyrsta Kvennahlaup ÍSÍ haldið á átta stöðum á landinu, í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ. Lovísa Einarsdóttir, sem sæti átti í framkvæmdastjórn ÍSÍ á þeim tíma, var í lykilhlutverki við stofnun hlaupsins og síðar framkvæmd þess til margra ára. Lovísa var mikil kjarnakona og það var hennar hugsjón að fá fleiri konur til að iðka íþróttir og almenna hreyfingu, sér til heilsubótar. Hún hreif með sér aðra drífandi einstaklinga og ævintýrið hófst. Síðar var sett á laggirnar Kvennahlaupsnefnd ÍSÍ sem hefur leitt undirbúning og skipulag hlaupsins af hálfu ÍSÍ með miklum sóma.
Á þessum tíma sá enginn fyrir að hlaupið yrði að þeim stórviðburði sem það síðar varð en Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ hefur í áratugi verið einn af stærstu almenningsíþróttaviðburðum á Íslandi. Sérstaða hlaupsins er fjöldi hlaupastaða, dreifing þeirra á landsvísu og sú staðreynd að þátttakendur eru nánast eingöngu konur.
Helsta markmiðið með hlaupinu var að hvetja konur til að stunda hreyfingu og ná samstöðu meðal kvenna um aukna hreyfingu og hollari lífshætti. Hlaupið var oftast dagsett sem næst 19. júní til að tengja það réttindabaráttu kvenna og lengi vel var hvert og eitt hlaup tengt ákveðnu baráttumáli eða þema sem féll vel að markmiðum hlaupsins.
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ er löngu orðið að ómissandi viðburði hjá konum á öllum aldri um land allt. Allir geta fundið sér vegalengd við hæfi og engin tímataka er í hlaupinu. Lögð er áhersla á að hver hlaupi á sínum forsendum og komi í mark á sínum hraða. Í hlaupinu koma kynslóðir saman, hreyfa sig og eiga ánægjulega samverustund. Oft eru konur úr sömu fjölskyldu búnar að útbúa dagskrá fyrir allan daginn, bæði fyrir og eftir hlaup og gera daginn þannig að sérstökum fjölskylduviðburði með tilheyrandi gleði, hvatningu og samstöðu. Oft fylgja karlmennirnir líka með, annað hvort sem þátttakendur í hlaupinu eða sem áhorfendur og stuðningsmenn. Félagslegi þátturinn hefur alltaf verið í öndvegi og flestum ber saman um að það sé bæði sérstök og skemmtileg stemmning á viðburðinum. Konur koma í hlaupið saman til að vera með fjölskyldu og vinum og vera þær sjálfar, fyrst og fremst.
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ hefur ekki bara verið vinsælt hér heima fyrir heldur einnig í öðrum löndum þar sem samfélag Íslendinga er sterkt og samheldið. Hlaupið hefur farið fram í nálægum löndum jafnt sem fjarlægum og má nefna Mósambík og Namibíu sem dæmi um hlaupastaði.
Hlaupið hefði hins vegar ekki orðið að þeim stórviðburði sem það er án öflugra tengiliða sem taka að sér framkvæmd hlaupsins um allt land og hafa hvetjandi áhrif á þátttöku í hlaupinu. Einnig vil ég minnast á alla þá sjálfboðaliða sem koma með einum eða öðrum hætti að hlaupinu. Á stærstu hlaupastöðunum styðja sveitarfélögin einnig dyggilega við framkvæmd hlaupsins. Má þar nefna Garðabæ, þar sem fjölmennasta hlaup hvers árs er haldið, en bærinn og Umf. Stjarnan hafa lagt sig fram við að gera umgjörð hlaupsins sem glæsilegasta og stutt með margvíslegum hætti við skipulag og framkvæmd þess.
Sjóvá hefur verið bakhjarl hlaupsins frá upphafi og fóstrað og stutt verkefnið af áhuga og myndarskap. Einnig má minnast á Ölgerðina, Beiersdorf á Íslandi (Nivea) og Morgunblaðið sem hafa verið ómetanlegir samstarfsaðilar til margra ára.
Við hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands erum afar stolt af Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ og teljum að það hafi átt þátt í að auka almenna hreyfingu kvenna á Íslandi, tengja konur betur við íþróttahreyfinguna og vekja upp samstöðu og kraft hjá konum um allt land.
Ég vil hvetja sem flesta til að taka þátt í 30 ára afmælishlaupi Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ 15. júní nk. Það verður mikið um dýrðir um land allt og bryddað upp á ýmsum nýjungum í tilefni tímamótanna.
Framkvæmdastjórn ÍSÍ óskar öllum þátttakendum góðs gengis og góðrar skemmtunar í hlaupinu.
Lárus L. Blöndal
forseti ÍSÍ