Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Góð stemmning í kvennalandsliðinu í körfu

30.05.2019

Starfsmaður ÍSÍ hitti Helenu Sverrisdóttur og Sigrúnu Björgu Ólafsdóttur leikmenn kvennalandsliðsins í körfuknattleik eftir leik liðsins á móti Lúxemborg í dag þar sem Ísland vann góðan sigur með 76 stigum gegn 48.

Að sögn Helenu var leikur Íslands sterkur í dag og góð stemmning í hópnum. Allir leikmenn lögðu sig fram og spiluðu sem ein heild. Þær héldu forystu allan leikinn og segist Helena vera mjög ánægð með þá Benedikt Guðmundsson og Halldór Karl Þórisson, nýja þjálfara kvennalandsliðsins í körfuknattleik. Helena sagði Smáþjóðaleikana vera mikilvægan vettvang fyrir körfuknattleikslandsliðið. Þar fái þær tækifæri til að spila fullt af landsleikjum og að á þeim vettvangi sé hægt að þjappa hópnum saman. Það sé til dæmis mjög mikilvægt fyrir Evrópukeppnina sem framundan er.

Helena byrjaði að spila fyrir landsliðið 14 ára gömul og hefur nú spilað 73 landsleiki. Hún sagði það ekki mjög mikið miðað við þann árafjölda sem hún hefur verið í landsliðinu en tækifærin til að spila landsleiki væru ekki svo mörg. Á Smáþjóðaleikum fengi landsliðið hins vegar tækifæri til að spila nokkra landsleiki í hvert sinn og það skipti gríðarlegu máli fyrir reynslubankann.

Sigrún Björg er að spila sína fyrstu landsleiki nú á Smáþjóðaleikunum, en hún er aðeins 17 ára gömul. Benedikt þjálfari breytti aðeins út af vananum og brá á það ráð að setja yngstu og elstu stelpurnar saman í herbergi og síðan koll af kolli, þannig að Sigrún og Helena eru saman í herbergi. Sigrún segir mjög skemmtilegt að fylgjast með fyrirmynd sinni til margra ára, Helenu, í kringum keppni eins og þessa. Hún passi upp á hópinn eins og sönnum fyrirliða sæmir og að hún hafi lært margt af henni í ferðinni til þessa. Sigrún stóð sig vel í sínum fyrsta landsleik sl. þriðjudag, en hún mætti inn á völlinn og skoraði mjög fljótlega þriggja stiga körfu. Hún var flott í vörninni og gaf ekkert eftir. Hún segist ekki hafa verið stressuð að mæta í leikinn heldur hafi hún stefnt á að gera sitt og gera það vel. Sigrún Björg fer fljótlega eftir Smáþjóðaleikana í landsliðsverkefni með U-18 ára. 

Næsti leikur kvennaliðsins í körfuknattleik verður á morgun við Mónakó kl. 11:00 að staðartíma í bænum Bar.