Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Samantekt frá öðrum degi Smáþjóðaleika

29.05.2019

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik vann viðureign sína gegn Möltu í dag, 80:76, eftir framlengingu. Stigahæstur í dag var Elvar Már Friðriksson með 33 stig. Tók hann 7 fráköst. Kristinn Pálsson var með 17 stig, þar af 4 af 8 í þriggja og Gunnar Ólafsson bætti við 9 stigum og Dagur Kár Jónsson var með 7 stig.

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik beið lægri hlut fyrir sterku liði Svartfjallalands 81:73 í öðrum leik sínum á Smáþjóðaleikunum. Íslenska liðið átti góðan leik gegn svartfellska liðinu. Staðan var jöfn í hálfleik 35:35. Helena Sverrisdóttir skoraði 35 stig, Gunnhildur Gunnarsdóttir 14, Þóra Kristín Jónsdóttir 7, Hildur Björg Kjartansdóttir 6, Sara Rún Hinriksdóttir 6, Sigrún Björg Ólafsdóttir 3 og Bryndís Guðmundsdóttir 2.

Dagurinn í sundkeppninni skilaði Íslendingum þrennum gullverðlaunum, einum silfurverðlaunum, tvennum bronsverðlaunum, HM lágmarki og einni bætingu á tíma auk þess sem Anton Sveinn nánast tryggði sér farseðilinn til Tókýó 2020. Nánar má lesa um sundkeppnina hér.

Fyrsta keppnisdegi af þremur í frjálsíþróttum fór fram í dag. Íslendingar áttu tólf keppendur á þessum fyrsta keppnisdegi og hlutu þau ein gullverðlaun, þrjú silfur og eitt brons. Nánar má lesa um frjálsíþróttakeppnina hér.

Íslenska karlalandsliðið í blaki tapaði fyrir San Marínó í dag 3:1. Íslendingar unnu fyrstu hrinu 25:21. Töpuðu síðan 25:19, 25:21 og 25:20. Stigahæstir í íslenska liðinu voru Theódór Óskar Þorvaldsson með 15 stig og Ævarr Freyr Birgisson með 13.

Íslenska kvennalandsliðið í blaki vann sigur á San Marínó í dag 3:0. Ísland vann 26:24, 25:16 og 25:11. Stigahæstar í íslenska liðinu voru Thelma Dögg Grétarsdóttir með 14 stig og Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir með 11 stig.

Keppni í tennis átti að hefjast í gær, en vegna mikillar rigningar var keppni frestað. Í dag rigndi einnig og var brugðið á það ráð að þurrka vellina með svömpum. Aðstæður voru metnar reglulega yfir daginn, en seinnipartinn þótti skipuleggjendum í lagi að hefja tenniskeppnina. Rafn Kumar keppti á móti Alex Knaff frá Lúxemborg, en honum var raðað nr.2 í mótið. Rafn spilaði vel, en Knaff meiddist í leiknum og varð því að gefa leikinn. Rafn er því kominn áfram í 8 liða úrslit. Anna Sól Grönholm keppti við Danae Petroula frá Mónakó. Hún tapaði fyrstu lotu, en var yfir í annarri lotu þegar að stoppa þurfti leikinn vegna rigningar. Leikurinn mun halda áfram á morgun ef veður leyfir.

Liðakeppni í borðtennis hélt áfram í dag. Íslenska kvennalandsliðið mætti heimakonum frá Svartfjallalandi í síðasta leik riðlakeppninnar, en eftir 3-0 tap gegn þeim er ljóst að landsliðið komst ekki upp úr riðli sínum og er því úr leik.

Karlalandslið Íslands mætti einnig Svartfjallalandi í síðasta leik sínum í riðlakeppninni. Fyrir leikinn var ljóst að sigurvegarinn úr rimmunni færi í undanúrslitin en tapliðið yrði úr leik. Að lokum fór svo að Svartfjallaland vann rimmuna og Ísland situr því eftir og hefur þar með lokið leik sínum.

Vefsíða leikanna

Myndasíða ÍSÍ frá Smáþjóðaleikum 2019