Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Keppni í frjálsíþróttum hefst á eftir

29.05.2019

Keppni í frjálsíþróttum á Smáþjóðaleikunum hefst á eftir. Fyrsta grein hefst klukkan 16:00 og sú síðasta 19:50 að staðartíma. Ísland er tveimur tímum á eftir Svartfjallalandi. Ekki er sýnt beint frá mótinu en á heimasíðu mótsins má fylgjast með úrslitum jafnóðum. Hana má finna hér. Alls keppa 12 Íslendingar á fyrsta keppnisdegi.

16:00 - Hástökk kvenna - Birna Kristín Kristjánsdóttir og María Rún Gunnlaugsdóttir
Þær fyrstu sem hefja keppni fyrir Íslands hönd í frjálsíþróttum á Smáþjóðaleikunum eru Birna Kristín og María Rún. María á fimmta besta árangur keppenda og Birna áttunda bestan árangur. Alls eru níu keppendur skráðir.

16:30 - Kúluvarp karla - Guðni Valur Guðnason
Kringlukastarinn Guðni Valur verður fyrstur íslenskra frjálsíþróttakarla til að hefja keppni. Af fimm keppendum á Guðni Valur þriðja bestan árangur.

16:30 - 100 metra hlaup karla - Jóhann Björn Sigurbjörnsson
Í 100 metra hlaupinu er keppt í tveimur riðlum og svo fara þeir átta hröðustu í úrslit. Jóhann á bestan tíma meðal þeirra sjö sem hlaupa með honum í riðli. Í seinni riðli eru tveir sem hafa hlaupið hraðar. Úrslitin fara fram klukkan 19:05

16:55 - 400 metra hlaup karla - Kormákur Ari Hafliðason
Í 400 metra hlaupi karla er keppt í tveimur riðlum og úrslitin fara svo fram á morgun. Kormákur á næst bestan tíma af þeim fimm sem hlaupa með honum í riðli. Af þeim tíu sem hlaupa í heildina á hann fimmta bestan skráðan árangur.

17:20 - Langstökk karla - Ísak Óli Traustason og Kristinn Torfason
Níu keppendur eru skráðir til leiks í langstökki karla og þar á meðal tveir fulltrúar Íslands. Þar á Kristinn Torfason bestan árangur en á þessu ári hefur hann stokkið jafn langt og Ísak Óli. Ársbesti árangur þeirra er 7,14 metrar og hafa fjórir stokkið lengra en það á þessu ári.

17:45 - 5000 metra hlaup kvenna - Andrea Kolbeinsdóttir
Andrea Kolbeinsdóttir keppir fyrir hönd Íslands í 5000 metra hlaupi. Alls eru níu konur skráðar og er Andrea töluvert yngri en þær allar. Fimm ár eru á milli hennar og þeirrar sem er næst yngst og 19 ár í þá elstu. Andrea á þriðja besta tíma keppenda.

18:15 - Spjótkast kvenna - Irma Gunnarsdóttir og María Rún Gunnlaugsdóttir
Fjölþrautastúlkurnar mæta aftur til keppni í spjótkasti. Fjórar konur eru skráðar í greinina og því er helmingur keppenda íslenskir. María á næst bestan árangur og Irma þriðja besta.

18:15 - 5000 metra hlaup karla - Arnar Pétursson og Hlynur Andrésson
Í 5000 metra hlaupi karla eru tíu keppendur skráðir til leiks og þar af tveir íslenskir. Hlynur á næst bestan tíma keppenda og Arnar sjöunda besta.

18:50 - 100 metra hlaup kvenna - Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth
Í 100 metra hlaupi kvenna er hlaupið beint til úrslita. Guðbjörg og Tiana eiga báðar best 11,68 sekúndur. Aðeins tvær aðrar hafa hlaupið hraðar en það af þeim átta sem keppa í hlaupinu.

19:05 - 100 metra hlaup karla - Úrslit
Takist Jóhanni Birni að vera meðal átta efstu í undanrásunum þá mun hann keppa til úrslita klukkan 19:05.