Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
27.07.2024 - 13.08.2024

Keppni í 100 m...

Anton Sveinn McKee keppir í 100 m bringusundi...
22

Guðbjörg Jóna með gull

29.05.2019

Fyrsta keppnisdegi af þremur í frjálsíþróttum er lokið á Smáþjóðaleikunum. Íslendingar áttu tólf keppendur á þessum fyrsta keppnisdegi og hlutu þau ein gullverðlaun, þrjú silfur og eitt brons.

Úrslit í 100 metra hlaupi karla og kvenna fóru fram í lok dags í mikilli rigningu. Í 100 metra hlaupi kvenna tóku íslensku stelpurnar bæði gull- og silfurverðlaun. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kom fyrst í mark á tímanum 11,79 sekúndum og rétt á eftir henni varð Tiana Ósk Whitworth á 11,88 sekúndum.

Í 100 metra hlaupi karla varð Jóhann Björn Sigurbjörnsson fjórði í fyrri undanriðli á 11,14 sekúndum. Sá tími kom honum í úrslitahlaupið þar sem hann hafnaði í fimmta sæti á 11,05 sekúndum. Aðstæður í úrslitahlaupunum hefðu getað verið betri. Það var rigning og léttur mótvindur. Í karlahlaupinu þurfti að ræsa keppendur þrisvar.

Í 5000 metra hlaupi karla varð Hlynur Andrésson annar í mark á 14:23,31 mínútu. Arnar Pétursson bætti sig í hlaupinu þegar hann hljóp á 15:05,79 mínútum og varð fimmti.

Í 5000 metra hlaupi kvenna fékk Andrea Kolbeinsdóttir bronsverðlaun þegar hún kom þriðja í mark. Mistök urðu við talningu hjá starfsmönnum mótsins og hlupu allir keppendur einum hring of langt. Því fékkst ekki gildur tími úr hlaupinu.

María Rún Gunnlaugsdóttir fékk silfur í spjótkasti og rétt svo missti af bronsi í hástökki. Í spjótkastinu kastaði hún 46,72 metra sem skilaði henni öðru sætinu. Í hástökki stökk hún yfir 1,74 metra sem var jafn hátt og sú sem fékk bronsið. María þurfti hins vegar fleiri tilraunir og því varð fjórða sætið hennar.

Irma Gunnarsdóttir keppti einnig í spjótkasti þar sem hún varð fjórða með 41,10 metra kast. Í hástökki bætti Birna Kristín Kristjánsdóttir sig þegar hún stökk yfir 1,71 metra og endaði í fimmta sæti.

Guðni Valur Guðnason keppti í kúluvarpi sem er ekki hans aðalgrein. Guðni er fyrst og fremst kringlukastari en samt sem áður tókst honum að næla sér í brons þegar hann kastaði 17,83 metra. Það er um 50 sentimetra bæting.

Í 400 metra hlaupi karla var Kormákur Ari Hafliðason á ferðinni og kom hann annar í mark í sínum riðli. Hann hljóp á 49,21 sekúndu og er fjórði inn í úrslitin sem fara fram á morgun.

Í langstökki kepptu Ísak Óli Traustason og Kristinn Torfason. Ísak Óli stökk 7,01 og endaði í fjórða sæti. Kristinn Torfason átti ég erfiðleikum með atrennuna sína en endaði samt sem áður fimmti með 6,79 metra stökk.

Kýpur og Lúxemborg leiða í heildarverðlaunum eftir fyrsta dag í frjálsíþróttakeppninni með átta verðlaun hvor. Ísland er í fjórða sæti með sex verðlaun alls, eitt gull, þrjú silfur og tvö brons.

Myndir með frétt