Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Karlalandsliðið í blaki keppti í dag

28.05.2019

Karlalandsliðið í blaki mætti Svartfellingum á Smáþjóðaleikunum í dag í sínum fyrsta leik í keppninni. Fyrirfram var Svartfellingum spáð góðu gengi á mótinu og því búist við að á brattann yrði að sækja. Byrjunarlið Íslands var skipað þeim Hafsteini og Kristjáni Valdimarssonum á miðjunum, Theódóri Óskari Þorvaldssyni og Ævari Frey Birgissyni á köntunum, Bjarka Benediktssyni í díó og Mána Matthíassyni í uppspil.

Íslenska liðið byrjaði af mikum krafti og komst fljótlega yfir. Í stöðunni 9:6 fyrir íslenska liðinu tóku Svartfellingar leikhlé. Svartfellingar bættu aðeins í eftir leikhléð og komust í 14:13 þegar íslenska liði tók leikhlé. Jafnt var á öllum tölum þangað til Svartfjallaland komst yfir 22:20. Íslensku strákarnir áttu glæsilegan endasprett og kláruðu hrinuna 25:23.

Liðin voru mjög jöfn í byrjun annarrar hrinu en íslenska liðið seig fljótlega fram úr og komst í 11:7 þegar heimamenn tóku leikhlé. Svartfellingar áttu þá ágætis kafla, minnkuðu muninn hægt og þétt og komust yfir 19:16 þegar Ísland tók leikhlé. Heimamenn voru sterkari í lok hrinunnar og unnu hana 25:20.

Svartfellingar byrjuðu þriðju hrinu betur og komust í 6:1 þegar Ísland tók leikhlé. Í stöðunni 7:1 kom Philip inn á fyrir Mána í uppspilið. Í stöðunni 11:6 kom Lúðvík Már Matthíasson inn á fyrir Theódór Óskar. Íslenska liðið jafnaði í 14:14 eftir glæsilegan ás frá Ævari Frey. Þá gáfu Svartfellingar í og unnu hrinuna 25:20.

Fjórða hrina var jöfn framan af og aldrei skildi meira en tvö stig liðin að fyrr en Svartfellingar komust í 15:12. Eftir það kom góður kafli hjá Svartfellingum sem komust í 21:12 með gríðarsterkum uppgjöfum. Eftir það var munurinn orðinn of mikill og þrátt fyrir ágætis kafla hjá íslensku strákunum dugði það ekki til og Svartfellingar unnu hrinuna 25:14 og þar með leikinn 3:1.

Stigahæstir í íslenska liðinu voru Theódór Óskar Þorvaldsson með 14 stig og Ævar Freyr Birgisson með 13. Næsti leikur íslenska karlaliðsins er á morgun klukkan 14 gegn San Marínó.