Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Jón Gestur sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ

27.05.2019
Þing Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH) var haldið laugardaginn 11. maí 2019 í Hásölum í Hafnarfirði. Þinghaldið hófst klukkan níu og lauk um þrjúleytið. Að loknu þingi var þingfulltrúum og gestum boðið í móttöku á vegum bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í Hafnarborg.
68 þingfulltrúar frá 16 félögum mættu til þingsins. Hrafnkell Marinósson formaður ÍBH setti þingið en Elísabet Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ÍBH fór yfir skýrslu stjórnar árin 2017 og 2018 þar sem þing bandalagsins er haldið annað hvert ár. Ragnar Hilmarsson gjaldkeri ÍBH lagði fram reikninga ÍBH og Afreksmannsjóðs ÍBH 2017 og 2018 og útskýrði þá fyrir fundarmönnum. Ágúst Bjarni Garðarsson formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar ávarpaði þingið og þakkaði öllum viðstöddum fyrir mikið sjálfboðaliðastarf sem unnið er úti í félögunum alla daga. Hafsteinn Pálsson formaður Heiðursráðs ÍSÍ og framkvæmdastjórnarmaður ÍSÍ ávarpaði þingið og flutti kveðju Lárusar L. Blöndal forseta ÍSÍ og Líneyjar Rutar Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ. Hann óskaði ÍBH til hamingju með gott starf sem hann sagði vera til fyrirmyndar á landsvísu. Hafsteinn fór lauslega yfir verkefni ÍSÍ sem framundan eru, bæði í almenningsíþróttum og afreksíþróttum og lauk ávarpi sínu með því að tilkynna að framkvæmdastjórn ÍSÍ hefði samþykkt einróma að sæma Jón Gest Viggósson Heiðurskrossi ÍSÍ, æðsta heiðursmerki ÍSÍ. Jón Gestur hefur verið virkur í íþróttastarfinu í Hafnarfirði um áratuga skeið, hann lék 257 leiki með meistaraflokki FH í handknattleik, sat í stjórn ÍBH frá 1995 – 2009 og í framkvæmdastjórn ÍSÍ í 15 ár, fyrst í varastjórn 2000-2009 og í aðalstjórn 2009-2015. Hann hefur einnig gegnt hinum ýmsu trúnaðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna í Hafnarfirði í gegnum árin. Fjóla Signý Hannesdóttir varaformaður Frjálsíþróttasambands Íslands afhenti heiðursviðurkenningar FRÍ til fimm einstaklinga úr röðum FH-inga á þinginu. Þrjár fastanefndir voru starfandi á þinginu, fjárhagsnefnd, allsherjarnefnd og íþróttanefnd og fengu þær átta tillögur til umfjöllunar. Tillaga um framkvæmdaröð nýrra verkefna í uppbyggingu íþróttamannvirkja 2019-2028 fékk mesta athygli þingsins.
Hrafnkell Marinósson var endurkjörinn formaður ÍBH til næstu tveggja ára. Kosið var í stjórn ÍBH til næstu tveggja ára átta aðalmenn og tvo til vara. Að lokum fengu 21 einstaklingur heiðursviðurkenningar frá ÍBH fyrir góð störf í þágu íþrótta.
Lúðvík Geirsson og Kristbjörn Óli Guðmundsson voru þingforsetar og stýrðu þinginu af fagmennsku.

Myndir með frétt