Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Líflegar sögur um andlega seiglu

14.05.2019

Í gær hélt Robert Weinberg, prófessor við Miami háskóla í Oxford í Ohio fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík. Fyrirlesturinn bar heitið Mental Toughness: What Is It and How Can It Be Built sem mætti þýða sem Andleg seigla: Hvað er það og hvernig er hægt að kenna hana? Weinberg er einn fremsti íþróttasálfræðingur heims og höfundur bókarinnar Foundations of Sport and Exercise Psychology. Í fyrirlestri Weinberg kom fram að fjórir máttarstólpar andlegrar seiglu séu áhugahvöt, getan til að ráða við álag, sjálfstraust og einbeiting. Weinberg talaði um að rannsakendur væru sammála um ýmsa þætti sem tengdust hugtakinu og sem dæmi væru flestir sammála um að andleg seigla væri bæði meðfædd og áunnin. Þá sagði Weinberg frá rannsóknum sínum þar sem hann skoðaði hvaða aðferðum farsælir íþróttaþjálfarar hafa beitt til að þjálfa upp andlega seiglu hjá sínu íþróttafólki. Í niðurstöðunum kom fram að lykilatriði væri að skapa jákvætt andrúmsloft fyrir íþróttafólk til að þroskast í. Þá væri mikilvægt að þjálfarar fullvissuðu sig um að íþróttafólkið tileinkaði sér ákveðna andlega þætti og nefndi hann sjálfstraust, markmiðasetningu, einbeitingu, tilfinningastjórnun og vilja til að leggja sig fram. Robert Weinberg var líflegur í sínum fyrirlestri og kryddaði fræðin með líflegum sögum og dæmum af afreksíþróttafólki. Fyrirlesturinn var mjög vel sóttur og þurfti að vísa fólki frá því ekki var pláss fyrir fleiri.

Myndir með frétt