Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Fjórir einstaklingar sæmdir Heiðurskrossi ÍSÍ

03.05.2019

 

74. Íþróttaþing ÍSÍ var sett í Gullhömrum í Reykjavík í dag kl. 15:00.
Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti einróma að sæma Önnu R. Möller, Jón M. Ívarsson, Stefán Snæ Konráðsson og Svanfríði Guðjónsdóttur með Heiðurskrossi ÍSÍ, æðstu heiðursviðurkenningu sambandsins.

Anna Möller hefur starfað fyrir Umf. Stjörnuna sem sjálfboðaliði í ríflega þrjá áratugi. Hún var þar formaður fimleikadeildar og síðan formaður aðalstjórnar félagsins. Anna hefur verið lífið og sálin í undirbúningsnefnd Kvennahlaupsins í Garðabæ frá árinu 1992 og hún á einnig sæti í Kvennahlaupsnefnd ÍSÍ. Anna hefur skilað ómetanlegu starfi í þágu Kvennahlaupsins um áratugaskeið en Kvennahlaupið er stærsti einstaki íþróttaviðburðurinn á vegum ÍSÍ á landsvísu, ár hvert. Anna gegndi starfi framkvæmdastjóra Fimleikasambands Íslands um árabil og einnig átti hún sæti í stjórn UMFÍ í áratug. Anna hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín í þágu íþróttahreyfingarinnar í gegnum tíðina og enn starfar hún á vettvangi íþrótta- og æskulýðs hjá Rannís.

Jón M. Ívarsson þekkja margir í íþróttahreyfingunni. Hann hefur unnið ómetanlegt starf við að skrásetja sögu íþrótta- og ungmennahreyfinganna á Íslandi og liggur eftir hann fjöldi bóka um félög og samtök íþrótta á Íslandi, meðal annars um starfsemi ÍSÍ. Hann var liðtækur frjálsíþróttamaður á árum áður og lét einnig að sér kveða í blaki og glímu. Hann var virkur í íþróttastarfinu heima í héraði, á starfssvæði Héraðssambandsins Skarphéðins. Hann gegndi embætti ritara stjórnar Frjálsíþróttasambands Íslands árin 1985-1989 og hefur setið í allmörgum nefndum og ráðum innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar í gegnum tíðina. Hann sat einnig í stjórn Glímusambands Íslands árin 1985-2000, þar af sem formaður síðustu sex árin. Jón er alltaf reiðubúinn að taka að sér störf í þágu íþrótta, hvort sem það lýtur að dómgæslu, þingstörfum, ritarastörfum eða ritstörfum. Jón er sá sem flestir leita til ef finna þarf til heimildir um starf hreyfingarinnar því þar koma fæstir að tómum kofanum.

Stefán Snær Konráðsson starfaði hjá ÍSÍ í 19 ár, lengst af sem framkvæmdastjóri sambandsins. Hann leiddi starf ÍSÍ á tímum mikillar endurskipulagningar og stýrði innleiðingu á sameiningu ÍSÍ og Ólympíunefndar Íslands í ný heildarsamtök íþrótta árið 1997. Hann var framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands 1990-1991 og hefur starfað í fjölmörgum nefndum og ráðum tengdum íþróttastarfi í gegnum tíðina, meðal annars leitt starfa Íþróttanefndar ríkisins árin 2014 – 2019. Stefán hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín bæði hérlendis og frá erlendum aðilum. Hann er annar tveggja íslenskra handhafa lárviðarsveigs Evrópusambands ólympíunefnda (EOC Laurel Award) en hann hlaut viðurkenninguna árið 2009 fyrir störf sín í þágu íþrótta á Íslandi og í Evrópu. Stefán starfar nú sem framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár og Íslenskra getrauna. Hann er hvergi nærri hættur að starfa í þágu íþrótta og situr m.a. í sjóðsstjórn Afrekssjóðs ÍSÍ.

Svanfríður Guðjónsdóttir hefur unnið ötullega að uppbygggingu knattspyrnu kvenna á Íslandi. Hún var fyrsta konan sem kjörin var í stjórn Knattspyrnusambands Íslands en hún hafði starfað í kvennanefnd KSÍ áður en hún var kosin í stjórn. Svanfríður vann mikið með landsliði kvenna í knattspyrnu um árabil, útvegaði æfingaleiki og var því til halds og trausts á ýmsan hátt. Einnig starfaði hún mikið í kringum kvennaknattspyrnuna í Breiðabliki á fyrstu árum hennar en dóttir hennar spilaði á þeim árum með Breiðabliki og einnig með landsliðinu. Svanfríður var meðlimur í Umbótanefnd ÍSÍ fyrir konur í íþróttum um árabil og vann þar frábært starf að hagsmunamálum kvenna í íþróttahreyfingunni.

Það er ÍSÍ mikil ánægja að sæma Önnu, Jóni, Stefáni og Svanfríði Heiðurskrossi ÍSÍ fyrir frábær störf í þágu íþróttahreyfingarinnar og óskar þeim til hamingju með viðurkenninguna.

Myndir með frétt