Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

100 dagar til EYOF í Bakú

12.04.2019

Í dag eru 100 dagar þar til Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar verður sett í Bakú í Azerbaijan þann 21. júlí 2019. Hátíðin er ætluð þátttakendum á aldrinum 14-18 ára. Keppnisgreinar á hátíðinni eru frjálsíþróttir, körfuknattleikur, hjólreiðar, fimleikar, handbolti, júdó, sund, tennis og blak. Að þessu sinni verður einnig keppt í glímu. Keppendur koma frá 50 Evrópuþjóðum og eru þátttakendur um 3.600 talsins. Ísland sendir keppendur í frjálsíþróttum, sundi, fimleikum, handknattleik og hjólreiðum. Íslendingar munu einnig senda flokksstjóra, þjálfara, dómara og fararstjóra.

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar er sett með athöfn sem nær hámarki þegar Ólympíueldur er tendraður og hátíðinni lýkur með lokaathöfn og skemmtun. Lokaathöfnin fer fram þann 27. júlí.

Myllumerki hátíðarinnar í ár er #ReadyToShine. Í tilefni þess að í dag eru 100 dagar til hátíðarinnar fer fram athöfn í elsta musteri heimsins, Ara Pacis, í Róm sem ber heitið „Shine Ceremony“. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, verður fulltrúi Íslands við athöfnina. Í Ara Pacis verður svokallaður friðareldur tendraður, en friðareldurinn fagnar voninni og hinu besta í mannlegu eðli, rétt eins og ólympíska hugsjónin um vináttu, virðingu og háttvísi. Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar er að mörgu leyti eins og smækkuð útgáfa af Ólympíuleikum og eru gildi ólympískrar hugsjónar í hávegum höfð á Ólympíuhátíðum Evrópuæskunnar, bæði sumar- og vetrarhátíðum. Einkunnarorð Ólympíuleikanna Citius (hraðar) - Altius (hærra) - Fortius (sterkar) hvetja íþróttafólkið til að gera sitt allra besta á meðan á keppni stendur sem og í lífinu. Lögð er áhersla á að það mikilvægasta í lífinu er ekki að sigra, heldur að berjast, að gera sitt allra besta og kappkosta við að ná sem allra bestum persónulegum árangri.
Þegar nær dregur hátíðinni verður tilkynnt um hverjir það eru sem keppa fyrir Íslands hönd.

Vefsíða hátíðarinnar