Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
8

Heiðrun á ársþingi USÚ

29.03.2019

Ársþing USÚ fór fram í Heklu, nýju félagsheimili Umf. Sindra miðvikudaginn 27. mars. Þingið sóttu 33 fulltrúar frá flestum aðildarfélögum sambandsins. Þingforseti var Arna Ósk Harðardóttir. Áður en þingið var sett, minntist Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, tveggja félaga sem féllu frá á árinu 2018, þeirra Hreins Eiríkssonar, annars tveggja heiðursfélaga USÚ frá upphafi og Kristjáns Vífils Karlssonar sem vann óeigingjarnt sjálfboðalið fyrir hinar ýmsu deildir Umf. Sindra, Golfklúbb Hornafjarðar og önnur félög innan USÚ.

Á þinginu voru samþykktar fjórar tillögur þar sem m.a. aðildarfélög USÚ voru hvött til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ í Neskaupstað í júní nk. og á Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Höfn um verslunarmannahelgina. Einnig voru félögin hvött til að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ. Félagsmenn aðildarfélaga USÚ og íbúar sveitarfélagsins Hornafjarðar voru hvattir til að taka þátt í  undirbúningi og framkvæmd Unglingalandsmótsins og samþykkt var tillaga um að USÚ greiði þátttökugjald sinna keppenda á Unglingalandsmótinu, líkt og gert var árið 2013. Samþykktar voru smávægilegar breytingar á lögum USÚ en tillaga um inngöngu Klifurfélags Öræfa var ekki samþykkt. Fram kom tillaga um að fresta inngöngu félagsins fram að næsta þingi, í ljósi þess að formleg umsókn félagsins barst USÚ aðeins degi fyrir þing. Sú tillaga var samþykkt með miklum meirihluta.

Stjórn USÚ var endurkjörin. Hana skipa: Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður, Kristján Örn Ebenezarson, ritari, og Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri.  Varamenn stjórnar voru kjörin þau Ásta Steinunn Eiríksdóttir og Hjálmari Jens Sigurðsson.
Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ og Halla Kjartansdóttir, skrifstofustjóri ÍSÍ, sátu þingið fyrir hönd ÍSÍ og ávarpaði Liney Rut þingið. Hjálmar Jens Sigurðsson, formaður körfuknattleiksdeildar Umf. Sindra var sæmdur Silfurmerki ÍSÍ fyrir góð störf í þágu körfuknattleiks á starfssvæði USÚ. Hjálmar hefur undanfarin ár leitt metnaðarfullt starf körfuknattleiksdeildar Sindra, sem m.a. hefur skilað sér í því að meistaraflokkur karla spilaði í fyrsta sinn í sögunni í 1. deild í körfubolta. Líney Rut afhenti Hjálmari Jens viðurkenninguna og voru meðfylgjandi myndir teknar við afhendinguna. Með Líneyju og Hjálmari er Jóhanna Íris, formaður USÚ.

Íþróttamaður USÚ fyrir árið 2018 var útnefndur á þinginu auk þess sem fjórir ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ. Nánari upplýsingar og fréttir frá þingi USÚ er að finna á heimasíðu sambandsins, www.usu.is. Hér er hægt að lesa skýrslu stjórnar USÚ fyrir árið 2018 en í henni má finna ársreikning sambandsins og skýrslur allra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Myndir með frétt