Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna í dag

08.03.2019

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er í dag, 8. mars, og hafa fjöldagöngur verið boðaðar víða um heim af því tilefni.

Alþjóðaólympíunefndin (IOC) leitast eftir því í starfi sínu að koma á jafnrétti kynjanna og alþjóðaíþróttasamfélagsins. Til stuðnings alþjóðlegum baráttudegi kvenna birtir IOC í dag grein til stuðnings konum í íþróttum undir myllumerkinu #WomenInSport og #WomensDay. Þar segir m.a. að ljóst sé að Ólympíuleikarnir séu mikilvægur vettvangur til að koma íþróttakonum á framfæri sem fyrirmyndum, en að fjölmiðlar þurfi að fjalla meira um íþróttakonur almennt, en ekki einungis í tengslum við stórviðburði. Samkvæmt könnun sem UNESCO stóð fyrir árið 2018 eru konur aðeins 7% íþróttafólks sem fjallað er um í íþróttafréttum og aðeins 4% íþróttaumfjöllunnar snýst einungis um konur. Í greininni er áhersla lögð á að fjölmiðlar þurfti að fjalla meira um íþróttakonur og að vera hluti af því að aðstoða samfélagið við að binda endi á mýtur um „karlaíþróttir “ eða „íþróttir sem eru ekki fyrir stelpur“. Í gær birti IOC grein á vefsíðu sinni um kraftlyftingakonuna Morghan King, sem sjá má í mynd með fréttinni, en hún hefur vakið athygli á kraftlyftingum sem ekki einungis karlaíþrótt heldur íþrótt fyrir stelpur og konur líka. Hún hvetur konur áfram til æfinga og keppni í íþróttum sem hafa talist karlíþróttir í gegnum tíðina og fordæmir þá ranghugmynd að sterkar konur séu ekki kvenlegar. 

Þátttaka kvenna í íþróttum fer vaxandi, en betur má ef duga skal. Á síðasta ári birti IOC lykilniðurstöður jafnréttisrannsóknar (Gender Equality Review Project) sem framkvæmd var á þeirra vegum. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er mælst til þess að sambandsaðilar IOC nýti sér í sínum störfum 25 lykilviðmið sem beinast að því að breyta samtalinu um konur í íþróttum í heild sinni - frá þátttöku til framsetningu og ákvarðanatöku. Þessi 25 lykilviðmið ná yfir fimm lykilatriði; íþróttir, sköpun, fjármögnun, stjórnarhætti og mannauð. Leitast er eftir því að koma á jafnrétti kynjanna innan Ólympíuhreyfingarinnar og alþjóðaíþróttasamfélagsins, en með lykilviðmiðunum skapast aðgerðaráætlun fyrir alla sambandsaðila innan IOC í þeirri viðleitni. Viðmiðin endurspegla það átak sem IOC og alþjóðasambönd þess hafa nú þegar komið af stað, þ.e. að stuðla að aukinni þátttöku, ákvarðanatöku og forystu kvenna á öllum sviðum íþrótta. Viðmiðin er aðeins eitt skref af mörgum hjá IOC að því markmiði að jafnrétti ríki á milli kynjanna í íþróttaheiminum og víðar. Hér má sjá þessi 25 lykilviðmið.

IOC mælist einnig til þess að íþrótta- og Ólympíusambönd veiti styrki sem stuðla eigi að jafnrétti kynjanna (þar á meðal styrki sem jafna eiga út verðlaunafé sem veitt eru í íþróttakeppnum) og stígi skref til þess að stuðla að fjölbreytni í stjórnum sambandsins og öðrum aðildum. 

IOC hefur einnig komið á árlegum verðlaunaviðburði sem kallast „Konur í íþróttum“ (IOC Women in Sport Awards), þar sem þeim er veitt verðlaun; konum, körlum eða stofnunum, sem hafa sett sitt mark á þróun, hvatningu og styrkingu á þátttöku kvenna í íþróttum.

 Hér á vefsíðu IOC má lesa meira um starf IOC sem miðar að því að ná kynjajafnrétti í íþróttaheiminum.