Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Hetjur Ólympíuleika í þáttaröð á Ólympíustöðinni

06.03.2019

Ólympíustöðin er ókeypis vettvangur sem sýnir beint frá íþróttaviðburðum og býður upp á þáttaraðir tileinkaða íþróttum og íþróttafólki allt árið um kring. Stöðin leggur áherslu á afreksíþróttafólk og þeirra leið að meiri árangri. Árið 2017 hóf Ólympíustöðin göngu þáttanna  „Goðsagnir lifa“ (Legends Live On), en í fyrstu þáttaröðinni var fjallað um hetjur Ólympíuleikanna eins og fimleikakonuna Nadia Comaneci, sundmanninn Ian Thorpe og snjóbrettakappann Shaun White. Nú hefur ný þáttaröð litið dagsins ljós þar sem fylgjast má með hetjum Ólympíuleikanna eftir íþróttaferilinn og á nýjum starfsvettvangi. Fyrsti þáttur, sem kom út í lok febrúar sl., fjallar um franska skíðakappann og gullverðlaunahafa á Ólympíuleikunum í Albertville árið 1992 Edgar Grospiron en hann starfar nú sem fyrirlesari. Fjallað er um hvernig hann notar nú reynslu sína úr íþróttaheiminum til þess að hvetja ungt íþróttafólk áfram. Skilaboð hans eru skýr: „Það sem ég vil segja er mjög einfalt, þetta snýst allt um áhuga og innri hvöt.“

Í þessari þáttaröð má einnig fylgjast með öðrum hetjum Ólympíuleikanna eins og skíðakonunni Tina Maze frá Slóveníu, en hún er tvöfaldur gullverðlaunahafi en einnig þekkt söngkona á heimaslóðum sínum, kraftlyftingamanninum Mattias Steinar frá Þýskalandi, en hann vann tilfinningaþrunginn sigur á Ólympíuleikunum 2008, skylmingakonunni Valentina Vezzali frá Ítalíu sem á sex gullverðlaun frá Ólympíuleikum og starfar nú sem stjórnmálakona og Svetlana Khorkina frá Rússlandi, en flestir þekkja hana sem eina bestu fimleikakonu allra tíma. Hún starfar nú í íþróttafélagi í Moskvu þar sem drifkraftur hennar skín skært.

Dagskrá þáttanna má sjá hér á vefsíðu Ólympíustöðvarinnar.

Á Ólympíustöðinni má einnig sjá myndina „Fimm hringir“. Í henni er m.a. fjallað um tékkneskt íshokkílið sem vann mjög óvænt til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Nagano árið 1998, um hnefaleika menninguna á Kúbu og hnefaleika goðsögnina Teofilo Stevenson, en einnig fjallar hún um „Gullnu kynslóðina“ sem segir frá argeníska körfuknattleikslandsliðinu og leið þeirra að gullverðlaunum í Aþenu árið 2004.

Fleiri áhugaverða og fræðandi þætti má sjá á Ólympíustöðinni:

The Z Team þar sem fjallað er um íþróttalið sem glíma við ákveðin vandamál og fá aðstoð frá reyndum þjálfurum og Ólympíuförum í að verða betri.

Against All Odds þar sem fjallað er um íþróttafólk sem hefur yfirstigið erfiðleika og náð undraverðum árangri á sviði íþrótta.

Identify þar sem fjallað er um trans íþróttafólk og það hvernig íþróttir hafa haft áhrif á líf þeirra.

Hitting the Wall þar sem fjallað er um æfingar íþróttafólks úr ólíkum íþróttagreinum.

Á Ólympíustöðinni geta notendur upplifað kraft íþróttanna og Ólympíuhreyfingarinnar allt árið, hvar sem er og hvenær sem er. Hægt er að horfa á Ólympíustöðina á vefsíðu Olympic Channel. Íþróttamenn og aðdáendur geta einnig fylgt Ólympíustöðinni á samfélagsmiðlasíðum hennar, FacebookInstagramTwitter og YouTube.

Myndir með frétt