Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Eitt ár frá PyeongChang 2018

09.02.2019

Vetrarólympíuleikarnir fóru fram í PyeongChang í Suður- Kóreu 9. - 25. febrúar 2018. Í dag er eitt ár frá setningarhátíð leikanna. Fulltrúar Íslands á leikunum voru Freydís Halla Einarsdóttir og Sturla Snær Snorrason í alpagreinum, Elsa Guðrún Jónsdóttir, Snorri Einarsson og Isak Stianson Pedersen í skíðagöngu.

Margs er að minnast frá Vetrarólympíuleikunum 2018 og var Ólympíustöðin með beina útsendingu frá því þegar besta íþróttafólk heims atti kappi. Ásamt því sýndi stöðin viðtöl við íþróttafólk og hin ýmsu myndbönd og samantektir frá leikunum. Stöðin vill nú minna aðdáendur íþrótta á þessa stórkostlegu Vetrarólympíuleika, þegar að ár er liðið frá setningarhátíð leikanna, og sýnir við það tilefni samantekt sem kallast „Spólað til baka: PyeongChang 2018“ dagana 9. - 25. febrúar. Á stöðinni verður hægt að sjá fjöldan allan af myndböndum frá leikunum, ógleymanleg augnablik frá stærstu sigrum íþróttafólks, fræðslumyndbönd og fleira.

Það má segja að mörg eftirtektarverð augnablik hafi átt sér stað á þessum rúmu tveimur vikum á meðan á leikunum stóð, t.d. vann norska liðið hug og hjörtu fólks um allan heim með frammistöðu sinni og íþróttafólk frá Norður-Kóreu og Suður-Kóreu gekk saman inn á Ólympíuleikvanginn á setningarhátíðinni. Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, segir í nýlegu viðtali við Around the Rings (sem sjá má hér) að Vetrarólympíuleikarnir 2018 hafi opnað á pólitískar viðræður á milli Norður-Kóreu og Suður-Kóreu og að leiðtogar beggja þjóða hafi falast eftir því við Alþjóðaólympíunefndina að hún haldi áfram að aðstoða þjóðirnar við samvinnu. Þann 15. febrúar nk. mun Alþjóðaólympíunefndin leiða vinnufund með fulltrúum frá Ólympíunefndum Norður-Kóreu og Suður-Kóreu ásamt íþróttamálaráðherrum beggja þjóða, en á þeim fundi stendur til að ræða áframhaldandi samvinnu þjóðanna á sviði íþrótta. Sérstaklega verða Ólympíuleikarnir í Tókýó 2020 ræddir og hvernig þjóðirnar geti unnið saman fyrir leika og á meðan á leikunum stendur. Hægt verður að nálgast tilkynningu frá Alþjóðaólympíunefndinni eftir fundinn á vefsíðu nefndarinnar www.olympic.org.

Myndband frá setningarhátíðinni

Vefsíða Olympic Channel

Samfélagsmiðlar Olympic Channel: FacebookInstagramTwitter og YouTube.