Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Undirritun samninga um framlag til ÍSÍ

26.11.2018

Mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði samninga við ÍSÍ á dögunum. Samningurinn við Íþrótta- og Ólympíusambandið felur í sér framlag vegna reksturs sambandsins sem og stuðning við sérsambönd ÍSÍ. Einnig var undirritaður samningur vegna Ferðasjóðs íþróttafélaga. Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ undirritaði samningana fyrir hönd ÍSÍ en þeir gilda frá 2018-2020. Við sama tækifæri voru samningar við Íþróttasamband fatlaðra og Skáksamband Íslands undirritaðir.

Markmiðið með samningum þessum er að tryggja rekstur ÍSÍ og styrkja sérsambönd sem starfa innan vébanda ÍSÍ. Hlutverk þeirra er meðal annars að efla mótahald, útbreiðslu og fræðslu um viðkomandi íþróttagreina á landsvísu, auka upplýsingagjöf um íþróttastarf og koma fram fyrir hönd viðkomandi greinar á erlendum vettvangi. 

Við undirritunina sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra það ánægjulegt hversu blómlegt íþróttastarf á Íslandi væri og það megi ekki síst þakka öflugu samstarfi. Hún sagði stefnu stjórnvalda vera að sem flestir geti iðkað íþróttir við sitt hæfi og að það sé viðvarandi verkefni að tryggja að svo sé. Lilja sagði samningana staðfesta það mikilvæga sameiginlega verkefni ríkisvaldsins og íþróttahreyfingarinnar.

Á myndinni eru fulltrúar Skáksambands Íslands, ÍSÍ og Íþróttasambands fatlaðra ásamt mennta- og menningarmálaráðherra.