Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Taekwondosamband Íslands hlýtur styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ

26.11.2018
Nýverið var gengið frá samningi Taekwondosambands Íslands og Afrekssjóðs ÍSÍ vegna styrkveitinga ársins 2018.
 
Taekwondosamband Íslands (TKÍ) flokkast sem C/Þróunarsérsamband samkvæmt flokkun Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2018. Heildarstyrkveiting sjóðsins til TKÍ vegna verkefna ársins er 1.950.000 kr. og er hækkun á styrkupphæð frá síðasta ári þar sem verkefni TKÍ árið 2017 hlutu styrk að upphæð 800.000 kr.
 
Afreksstarf TKÍ á árinu einkenndist af góðum árangri keppenda í bardaga auk sívaxandi umfangs landsliðsverkefna. TKÍ sendi keppendur á fjölmörg alþjóðleg mót, s.s. Evrópumót og heimsbikarmót, heimsmeistaramóts unglinga og úrtökumót fyrir Ólympíuleika ungmenna. Þá hefur umgjörð afreksstarfsins verið bætt og fjölgað í hópi landsliðsþjálfara.  
 
Það voru þau Haukur Skúlason, formaður TKÍ og Dagbjört Rúnarsdóttir, meðstjórnandi í TKÍ, sem undirrituðu samninginn fyrir hönd TKÍ og þau Lilja Sigurðardóttir, formaður stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ og Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ fyrir hönd Afrekssjóðs ÍSÍ.
 
Á myndinni má sjá þau Hauk og Lilju að lokinni undirritun.