Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Golfsamband Íslands hlýtur styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ

23.11.2018
Gengið hefur verið frá samningi Golfsambands Íslands og Afrekssjóðs ÍSÍ vegna styrkveitinga ársins 2018.
 
Golfsamband Íslands (GSÍ) flokkast sem A/Afrekssérsamband samkvæmt flokkun Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2018. Heildarstyrkveiting sjóðsins til GSÍ vegna verkefna ársins er 27.400.000 kr. en til samanburðar þá hlutu verkefni GSÍ árið 2017 styrk að upphæð 14.850.000 kr. frá Afrekssjóði ÍSÍ.
 
Mikill vöxtur hefur verið í afreksstarfi GSÍ á undanförnum árum og hefur árangur einstaklinga og hópa verið framúrskarandi. GSÍ hefur verið að efla umhverfi afreksíþróttafólksins með mælingum á afrekskylfingum og stuðning í tengslum við mót sem og í undirbúningi viðburða. Tveir keppendur tóku þátt í Ólympíuleikum ungmenna á árinu og sigur í liðakeppni á Evrópumeistaramótinu í Glasgow á árinu er án efa einn af hápunktum ársins. Fjölmargir kylfingar hafa verið að keppa á alþjóðlegum mótum á árinu og margir þeirra tekið þátt í sterkustu mótaröðum í heiminum.
 
Það voru þau Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ og Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri GSÍ, sem undirrituðu samninginn fyrir hönd GSÍ og þau Lilja Sigurðardóttir, formaður stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ og Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ fyrir hönd Afrekssjóðs ÍSÍ.