Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Aðvörun vegna fyrirmælafalsana

23.11.2018

Borið hefur á því að forsvarsmenn íþróttafélaga fái tölvupóst sem virðist vera frá formanni eða framkvæmdastjóra viðkomandi félags þar sem óskað er eftir því að ákveðin upphæð verði millifærð á uppgefinn bankareikning. Vitað er um nokkur íþróttafélög sem tapað hafa umtalsverðu fé í svikum sem þessum. Tölvupóstar þessir eru afar trúverðugir og fátt sem gefur til kynna að um falsaðan tölvupóst sé að ræða. Notuð eru nöfn viðkomandi aðila og póstarnir eru á góðri íslensku. Innihaldið er í fáum setningum og jafnvel látið líta svo út að þeir séu ritaðir í flýti.

Svik af þessu tagi er kallað CEO-fraud eða fyrirmælafölsun/stjórnendasvik þar sem yfirmaður óskar eftir millifærslu á fjármunum yfir á erlenda bankareikninga. Þessi tegund svika hefur færst töluvert í aukana og hefur í auknum mæli beinst að íþróttafélögum í landinu. Mikilvægt er að hafa strax samband við lögregluna á netfangið cybercrime@lrh.is ef grunur leikur á að íþróttafélag hafi orðið fyrir svikum af þessu tagi og einnig viðskiptabanka viðkomandi. Því fyrr sem tilkynning berst, þeim mun meiri líkur eru á því að féð verði endurheimt.

ÍSÍ hvetur sambandsaðila sína og aðildarfélög innan þeirra raða að hafa allan vara á í aðstæðum sem þessum. Mikilvægt er að staðfesta allar greiðslubeiðnir af þessu tagi með símtali eða með því að fá staðfestingu frá öðrum tengdum aðila. Staðfesta einnig breyttar greiðsluupplýsingar birgja með símtali. Horfa á sjálft netfangið, auk birtingarnafns, og kanna hvort að aðrir í félaginu hafi fengið svipaðan póst. Það þarf að læra að þekkja hætturnar og hafa auga fyrir því sem stingur í stúf. Er sendandinn að setja mikla tímapressu á viðtakandann? Er viðtökulandið nýtt? Er viðtökubankinn nýr?

Hér fyrir neðan má finna gagnlegar síður varðandi öryggismál á netinu sem fróðlegt er að skoða:

Netöryggi.is

SAFT - Samfélag, fjölskylda og tækni

lögreglan.is