Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Þríþrautarsamband Íslands hlýtur styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ

22.11.2018
Nýverið var gengið frá samningi Þríþrautarsambands Íslands og Afrekssjóðs ÍSÍ vegna styrkveitinga ársins 2018.
 
Þríþrautarsamband Íslands (ÞRÍ) flokkast sem C/Þróunarsérsamband samkvæmt flokkun Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2018. Heildarstyrkveiting sjóðsins til ÞRÍ vegna verkefna ársins er 1.250.000 kr. og er hækkun á styrkupphæð frá síðasta ári þar sem verkefni ÞRÍ árið 2017 hlutu styrk að upphæð 1 m.kr.
 
Einstaklingar á vegum ÞRÍ hafa tekið þátt í fjölmörgum erlendum mótum á árinu og hefur Guðlaug Edda Hannesdóttir verið þar fremst í flokki, en hún varð heimsmeistari í ITU Aquathlon síðasta sumar og náði m.a. 7. sæti á Evrópubikarmóti í þríþraut sem fram fór í Malmö síðasta haust. Hún stefnir á þátttöku á Ólympíuleikunum í Tokyo 2020 og nýtur m.a. styrks frá Ólympíusamhjálpinni vegna þessa. Þríþrautarsamband Íslands er yngsta sérsambandið innan ÍSÍ og er að byggja upp afreksstarfið sitt en hraður vöxtur hefur verið í íþróttagreininni að undanförnu. 
 
Það voru þau Halldóra Gyða Matthíasdóttir, formaður ÞRÍ og Hákon Jónsson, starfsmaður ÞRÍ, sem undirrituðu samninginn fyrir hönd ÞRÍ og þau Lilja Sigurðardóttir, formaður stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ og Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ fyrir hönd Afrekssjóðs ÍSÍ.
Á myndinni má sjá þau Halldóru og Lilju að lokinni undirritun.