Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Formannafundur ÍSÍ haldinn í dag

16.11.2018

Árlegur Formannafundur ÍSÍ var haldinn í dag föstudaginn 16. nóvember í Laugardalshöllinni. Ríflega 100 manns sóttu fundinn.

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ setti fundinn og ávarpaði fundargesti. Hann ræddi þau verkefni sem á borði hreyfingarinnar hafa verið undanfarið ár, ýmsar áskoranir í starfsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og þróun og framtíð í skipulagsmálum íþrótta.

Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ flutti skýrslu stjórnar og Gunnar Bragason gjaldkeri ÍSÍ fór yfir fjárhagslegar upplýsingar. Framkvæmdastjórn lagði þrjú mál fyrir Formannafund til kynningar og umræðu. Ragnhildur Skúladóttir sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ fór yfir stöðu mála varðandi #églíka, Anna Þórdís Rafnsdóttir stjórnendaráðgjafi frá Advania fór yfir skyldur og verkefni íþróttahreyfingarinnar vegna nýrra laga um persónuvernd (GDPR) og Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ ræddi ýmis mál er varða starfsemi íþróttafélaga og lagaumhverfi hreyfingarinnar.

Góðar umræður urðu á fundinum, meðal annars um þjóðarleikvanga, aðstöðumál sambandsaðila, skyldur sambandsaðila og fleiri hagsmunamál er brunnu á fundargestum.

Að loknum fundi bauð ÍSÍ fundargestum til kvöldverðar í Café Easy.

Myndir frá Formannafundinum má sjá á myndasíðu ÍSÍ hér. Von er á fleiri myndum á næstu dögum. 

Myndir með frétt