Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Nikolay skipaður varaforseti Evrópska skylmingasambandsins

05.11.2018

Nikolay Ivanov Mateev, formaður Skylmingasambands Íslands, var skipaður varaforseti Evrópska skylmingasambandsins á dögunum. 
Nikolay hefur verið potturinn og pannan í skylmingaíþróttinni hér á landi um langt árabil. Hann var lengi framkvæmdastjóri Skylmingasambands Íslands og var kjörinn formaður sambandsins árið 2016. Hann var fyrst kjörinn í framkvæmdastjórn Evrópska skylmingasambandsins (EFC) árið 2009 og hefur setið í stjórn sambandsins óslitið síðan. Hann hlaut bestu kosningu allra meðstjórnenda í EFC á þingi sambandsins árið 2017 er hann fékk 36 atkvæði af 40 mögulegum. Í kjölfar þess að skipaður varaforseti sambandsins hætti snögglega störfum var Nikolay skipaður varaforseti sambandsins og mun gegna því embætti til ársins 2020, þegar næsta þing EFC verður haldið. 

Nikolay hefur setið í nefnd Alþjóðaskylmingasambandsins (FIE) um kynningar-, samskipta- og markaðsmál allt frá árinu 2008 og er núverandi formaður þeirrar nefndar. Einnig var hann formaður þjálfaranefndar EFC 2009-2013 og nefndarmaður og síðar formaður Mótanefndar EFC 2013-2020.

Það er mikill fengur fyrir íslenska skylmingahreyfingu að fá Nikolay í þetta embætti og heiður fyrir íslenska íþróttahreyfingu að eiga fulltrúa í æðstu stjórn skylmingaíþróttarinnar í Evrópu.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands óskar Nikolay innilega til hamingju með kjörið!