YOG: Áttundi keppnisdagur
Þá er keppni okkar fólks lokið í dag á Ólympíuleikum ungmenna í Buenos Aires. Í dag var annar keppnisdagur í parakeppni í golfi og Valdimar Hjalti Erlendsson kastaði í seinni umferð kringlukastskeppninnar.
Ekki gekk nógu vel hjá íslensku keppendunum í golfi í dag. Léku þau samtals á +18 yfir pari vallarins og eru í 30 sæti að loknum tveimur af þremur keppnishringjum í parakeppninni í golfi. Í dag var fyrirkomulagið þannig að pörin skiptust á að leika boltanum.
Í kringlukastskeppninni náði Valdimar Hjalti Erlendsson sínum besta árangri til þessa þegar hann kastaði 57,46m. Rétt eins og í fyrri umferðinni endaði Valdimar Hjalti í sjötta sæti, sjötta sæti er einnig sæti hans þegar úrslit beggja umferða eru lögð saman.
Á morgun mánudag er svo komið að síðasta hringnum í parakeppninni í golfi og Elísabet Rut Rúnarsdóttir kastar í annarri umferð sleggjukastskeppninnar.