Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

YOG: Annar keppnisdagur

08.10.2018

Þá er öðrum keppnisdegi lokið á Ólympíuleikum ungmenna í Buenos Aires. Í dag kepptu þau Snæfríður Sól Jórunnardóttir í 100m skriðsundi og Martin Bjarni Guðmundsson í hringjum og í stökki í áhaldafimleikum.

Snæfríður Sól synti í undanriðlum 100 metra skriðsunds á tímanum 57,22s. Varð hún í sjötta sæti í sínum riðli. Í heildina varð hún í 21 sæti af þeim 45 sem syntu sundið. Þær sem áttu 16 bestu tímana komust áfram í undanúrslit.

Í hringjum fékk Martin Bjarni einkunnina 11,833 sem tryggði honum 27 sæti í greininni af þeim 34 keppendum sem tóku þátt. Í stökki fékk Martin Bjarni 13.449 sem var 10 besta stökk keppninnar. Er Martin því annar varamaður í úrslitum í greininni. Að loknum fjórum áhöldum af sex er Martin Bjarni með 49.349 stig í 21 sæti keppenda.

Á morgun þriðjudag er komið að keppni í höggleik beggja kynja í golfi þar sem þau Hulda Clara Gestsdóttir og Ingvar Andri Magnússon verða á meðal keppenda. Í sundi keppir Brynjólfur Óli Karlsson í 50m baksundi og Karen Mist Arngeirsdóttir í 100m bringusundi. Í fimleikunum er komið að keppni á tvíslá hjá Martin Bjarna.

Á myndunum sem fylgir má sjá Snæfríði í lauginni að loknu sundi, Martin Bjarna í hringjum, íslenska áhorfendur í stúkunni. Myndin með gula bakgrunninum er tekin að loknu sundi, frá vinstri á myndinni má sjá Lárus Blöndal forseta ÍSÍ, Ingibjörgu Kristínu Jónsdóttur sem gegnir hlutverki ungs áhrifavalds á leikunum, Snæfríði Sól, Karen Mist Arngeirsdóttur, Líneyju Rut Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ og Örnu Þóreyju Sveinbjörnsdóttur þjálfara sundhópsins.

Myndir með frétt