Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Forvarnardagurinn 2018

03.10.2018

Forvarnardagurinn er í dag. Í tengslum við daginn er vakin athygli á mikilvægum þáttum í forvarnarstarfi sem snúa að ungu fólki. Í ár eru viðfangsefni verkefnisins misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja og rafrettur. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti í því sem næst öllum grunnskólum landsins og er beint sérstaklega að unglingum í 9. bekk en einnig taka fjölmargir framhaldsskólar þátt í verkefninu. Í morgun fór forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson ásamt Þránni Hafsteinssyni, formanni stjórnar Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, í heimsókn í Menntaskólann við Hamrahlíð. Þar tóku Guðni forseti og Þráinn þátt í umræðum með nemendum í lífsleiknitíma um forvarnir og hvað ungmenni geti gert til að stuðla að heilbrigðu lífi. Nemendur í skólunum ræða hugmyndir sínar og tillögur um æskulýðs- og íþróttastarf og fjölskyldulíf, sem efla varnir gegn vímuefnum. Þá gefst nemendum fæddum ´02 og ´04 einnig kostur á að taka þátt í ljósmyndasamkeppni á Instagram sem kynnt verða á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #forvarnardagur18. Lokað verður fyrir leikinn þann 15. október nk. og verðlaun fyrir þrjár bestu myndirnar verða afhent við hátíðlega athöfn að Bessastöðum síðar á árinu. Embætti landlæknis stendur að deginum að þessu sinni en undanfarin ár hafa forseti Íslands, Reykjavíkurborg, ÍSÍ, UMFÍ, Skátarnir, Félag framhaldsskóla, Rannsókn og greining og Samband íslenskra sveitarfélaga staðið fyrir þessu átaki með stuðningi einkafyrirtækja.

Rafrettur
Notkun á rafrettum hefur mjög færst í vöxt meðal íslenskra unglinga síðustu árin. Umræðunni um rafrettur á að skipta í tvennt, annarsvegar sem leið til að aðstoða fólk við að hætta að reykja, sem er jákvætt og hinsvegar að ungt fólk sem ekki hefur reykt notar rafrettur í síauknum mæli. Þessi aukna notkun veldur áhyggjum þar sem ekki er vitað um áhrif hennar á heilsu til lengri tíma og hvort hún muni leiða til annarrar tóbaksnotkunar. Í rannsóknum hafa komið vísbendingar um að þeir sem nota rafrettur eru líklegri en aðrir til að byrja að nota tóbak.

Lyfseðilsskyld lyf
Undanfarið hefur mikið verið rætt um misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja í samfélaginu. Við höfum ekki fullnægjandi upplýsingar um misnotkun lyfja meðal ungs fólks en það stendur til að bæta spurningum þar að lútandi inn í könnun Rannsókna og Greiningar. Rannsóknir sýna fram á að tæplega 11% grunnskólanema í 10. bekk hafa tekið svefntöflur eða róandi lyf án lyfseðils einu sinni eða oftar um ævina sem ekki voru ávísuð á þau og 1.5% hafa reynt örvandi lyf eins og ritalín sem ekki voru þeim ætluð. Þá hafa um 20% fólks í grunnámi í Háskóla Íslands notað örvandi lyf, án þess að hafa fengið þeim ávísað frá lækni og notkunin er einkum til að reyna að bæta námsárangur. Nú hafa komið fram nýjar rannsóknir sem draga í efa að þau bæti í raun námsárangur hjá þeim sem ekki eru að taka lyfin vegna sjúkdómsgreiningar sinnar.

Röng notkun lyfja, sérstaklega að taka lyf sem ekki er ávísað af lækni á þann einstakling sem tekur það og að nota lyfið á rangan hátt getur verið lífshættulegt. Á þetta viljum við leggja mikla áherslu til þess að opna umræðuna um þessa miklu vá.

Lykilpunktar Forvarnardagsins

  •  Ungmenni sem verja í það minnsta klukkustund á dag með fjölskyldum sínum, eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna.
  • Ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf falla mun síður fyrir fíkniefnum.
  • Því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau verði fíkniefnum að bráð.

Hér á vefsíðu ÍSÍ má sjá meira um Forvarnardaginn.