Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Göngum í skólann - Saga frá skóla

25.09.2018

Göngum í skólann 2018 fer vel af stað en alls 73 skólar eru skráðir til þátttöku í verkefninu í ár. Nokkrir skólar hafa sent inn frásagnir og myndir á vefsíðu verkefnisins www.gongumiskolann.is, en þátttökuskólar eru hvattir til þess að senda myndir, frásagnir og/eða myndbönd af verkefninu. Smelltu hér til þess að senda inn efni.

Grunnskólinn á Þingeyri hleypti Ólympíuhlaupinu af stað þann 14. september síðastliðinn og tengdi hlaupið við Göngum í skólann verkefnið. Ólympíuhlaupið sem áður var þekkt sem Norræna skólahlaupið hefur farið fram í grunnskólum landsins óslitið frá því árið 1984 og Göngum í skólann fer nú fram tólfta árið í röð. Það var tilvalið hjá Grunnskólanum á Þingeyri að tengja þessa tvo viðburði og gera sér glaðan dag. Sólin lét sjá sig á meðan nemendur hlupu í gegnum markið og eftir hlaup fengu allir auka skammt af ávöxtum og fóru svo í sund. Nemendur höfðu allir sett sér það markmið að gera sitt besta sem tókst með prýði og hlupu krakkarnir samtals 183,5 km þennan dag.

Göngum í skólann verkefnið er einnig hluti af dagskrá í Smáraskóla og í tilefni af því áttu nemendur að koma með skópar sem þeir voru hættir að nota til þess að gefa í söfnun Rauða krossins. Glæsilegar fyrirmyndir úr heimi íþróttanna tóku þátt með Smáraskóla í verkefninu, en það voru blikarnir Sonný Lára Þráinsdóttir og Guðrún Arnardóttir sem gengu með nemendum í skólann. 

ÍSÍ vonast til þess að fá fleiri skemmtilegar frásagnir og myndir af því sem fer fram í skólunum í tilefni af verkefninu.

Vefsíða Göngum í skólann.

 

Myndir með frétt