Göngum í skólann - Saga frá skóla
Göngum í skólann 2018 fer vel af stað en alls 71 skólar eru skráðir til þátttöku í verkefninu í ár. Víkurskóli og Brekkuskóli hafa sent inn myndir á vefsíðu verkefnisins www.gongumiskolann.is, en þátttökuskólar eru hvattir til þess að senda myndir, frásagnir og/eða myndbönd af verkefninu. Smelltu hér til þess að senda inn efni.
Brekkuskóli hefur einnig sett inn frásögn af því sem kennarar og nemendur hafa gert í tilefni af verkefninu. Í Brekkuskóla byrjar skólaárið greinilega vel með fjölbreyttri útiveru nemenda, en eftirfarandi er frásögn sem kom frá Brekkuskóla: „Byrjuðum september á einstaklega vel heppnuðum útivistardegi þar sem nemendur nutu náttúrunnar í sól og yndislegu veðri. Eldri nemendur gátu valið um að ganga á Súlur, fara í hjólaferð og sund eða að ganga um bæinn og skoða útilistaverkin í bænum undir handleiðslu listakennara. Í september erum við með útiíþróttir og þá kynnum við fyrir þeim svæði sem hægt er að leika sér á í nágrenninu. Við förum vel yfir umferðareglur með yngstu nemendum og sýnum þeim öruggustu leiðir í kringum skólann“. Brekkuskóli nýtir nærumhverfið og hugmyndarflugið til þess að virkja börnin til göngu sem er til fyrirmyndar.
ÍSÍ vonast til þess að fá fleiri skemmtilegar frásagnir og myndir af því sem fer fram í skólunum í tilefni af verkefninu.
Vefsíða Göngum í skólann.