Vertu með! Sport For All!
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) vekja athygli á nýútkomnum bæklingi sem hefur það að markmiði að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi. Markhópur efnisins eru foreldrar barna og ungmenna af erlendum uppruna. Í bæklingnum er að finna hagnýtar upplýsingar um starfsemi íþrótta- og ungmennafélaga landsins. Sem dæmi má nefna; upplýsingar um æfingagjöld íþróttafélaga, frístundastyrki, mikilvægi þátttöku foreldra og kosti þess að hreyfa sig í skipulögðu starfi. Bæklingurinn er gefinn út á sex tungumálum þ.e. á íslensku, ensku, pólsku, tælensku, litháísku og filippseysku. Efnið er samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ. Hér má nálgast bæklingana.
Styrkur til félaga
Íþrótta- og ungmennafélögum stendur til boða að sækja um styrk að upphæð 180.000 krónur til að standa fyrir verkefni sem hvetur börn af erlendum uppruna til þátttöku í íþróttastarfi. Fimm styrkir verða í boði. Til þess að hljóta styrk þurfa félög að skila áætlun um hvernig nýta á fjármagnið. Tímarammi verkefnisins er frá september 2018 og til áramóta. Eftir að verkefnunum lýkur munu ÍSÍ og UMFÍ safna saman gögnum frá þeim félögum sem hljóta styrk og deila reynslunni áfram til annarra félaga í landinu. Saman getur íþróttahreyfingin hjálpast að, miðlað reynslu og þekkingu og gert gott starf enn betra. Smelltu hér til þess að sækja um. Umsóknarfrestur er til 17. september nk.
Vakin er athygli á Íþróttasjóði. Í ár er sérstök áhersla lögð á verkefni sem stuðla að þátttöku barna af erlendum uppruna. Umsóknarfrestur er til 1. október nk. Sjá nánar hér.