Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Ársþing HSK - Gullmerki ÍSÍ afhent

11.03.2018

Um 100 manns mættu á héraðsþing Héraðssambandsins Skarphéðins, sem haldið var í Þorlákshöfn 10. mars sl.. Á þinginu var lögð fram vegleg ársskýrsla um störf sambandsins á liðnu ári, ásamt því að í skýrslunni eru stutt yfirlit um störf aðildarfélaga sambandsins. Nálgast má ársskýrsluna á www.hsk.is undir fundargerðir. 

Litlar breytingar urðu á stjórn sambandsins, en öll stjórnin var endurkjörn utan þess að Jón Þröstur Jóhannesson Umf. Selfoss var kosinn nýr varastjórnarmaður í stað Gísla Ö. Brynjarssonar.
Stjórn sambandsins sem var kosin á þinginu skipa þau, Guðríður Aadnegard formaður, Guðmundur Jónasson gjaldkeri, Helgi S Haraldsson varaformaður, Anný Ingimarsdóttir ritari og Baldur Gauti Tryggvason meðstjórnandi. Í varastjórn eru Gestur Einarsson, Olga Bjarnadóttir og Jón Þröstur Jóhannesson.
Reikningar sambandsins voru lagðir fram og samþykktir samhljóða. Hagnaður varð af rekstri sambandsins á síðasta ári. Góðar umræður voru í nefndum þingsins og fjölmargar tillögur voru samþykktar.
Guðmundur Kr. Jónsson á Selfossi var kosinn heiðursformaður HSK á þinginu en Guðmundur var formaður sambandisns í átta ár og tekur enn virkan þátt í störfum þess. Guðmundur er sá þriðji í röðinni sem kosinn er heiðursformaður HSK. Sigurður Greipsson hlaut heiðurstitilinn árið 1966 og Jóhannes Sigmundsson árið 2011.
Árni Þorgilsson fyrrvarandi formaður HSK var sæmdur gullmerki HSK fyrir sín störf fyrir sambandið í áratugi.
Íþróttafólk í 20 íþróttagreinum sem stundaðar eru innan sambandsins var heiðrað og úr þeirra hópi var judómaðurinn Egill Blöndal úr Umf. Selfoss, valinn íþróttamaður HSK 2017.
Ýmis sérverðlaun voru veitt á þinginu. Umf. Selfoss var stigahæsta félagið, Frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss fékk unglingabikar HSK og fimleikadeild Hamars hlaut foreldrastarfsbikar HSK. Þá var Kjartan Kjartansson í Hveragerði valinn öðlingur ársins. Samkvæmt venju fór sleifarkeppni HSK fram á þinginu og þar sigraði Svanur Bjarnason Golfklúbbi Selfoss og Guðmundur Jónasson gjaldkeri HSK var útnefndur matmaður þingsins.

Gunnar Bragason gjaldkeri ÍSÍ var fulltrúi ÍSÍ á þinginu. Hann afhenti heiðursviðurkenningar fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ og afhenti Erni Guðnasyni Gullmerki ÍSÍ og Fanneyju Ólafsdóttur Silfurmerki ÍSÍ fyrir þeirra góðu störf í þágu íþrótta.

Myndir með frétt