Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

10

PyeongChang 2018 - Góðir gestir í Ólympíuþorpinu

10.02.2018

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- menningar- og íþróttamálaráðherra, var viðstödd setningu Vetrarólympíuleikanna í PyeongChang sem fram fór í gær og í dag skoðaði hún aðstæður á leikunum, hitti keppendur og heimsótti Ólympíuþorpið.

Lilja, og Hafþór Eide Hafþórsson, aðstoðarmaður hennar, voru þar í góðum félagsskap en þau Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ fylgdu ráðherra auk þess að Einar Þór Bjarnason, formaður Skíðasambands Íslands (SKÍ) og eiginkona hans Iðunn Lára Ólafsdóttir voru með í för.

Hópurinn heimsótti æfingaaðstöðu alpagreina þar sem Sturla Snær Snorrason var við æfingar og fór síðan í Ólympíuþorpið í PyeongChang þar sem Andri Stefánsson, aðalfararstjóri hópsins tók á móti hópnum og sýndi þeim aðstöðu íslenska hópsins og þann aðbúnað sem er að finna í þorpinu. Á gönguferð um þorpið prófaði hópurinn meðal annars hermi í Samsung setrinu, en þar er líkt eftir hraðferð í gegnum skíða- og sleðagreinar í sýndarveruleika.  Heimsóttur var sorgarreitur í þorpinu og friðarveggur skoðaður en báðir þeir staðir voru opnaðir formlega í síðustu viku af forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) og tengjast sögu Ólympíuleika og þeim skilaboðum sem leikarnir standa fyrir.

Vistarverur íslenska hópsins voru skoðaðar þar sem keppendur og aðrir fylgdarmenn hittu ráðherra en auk þess snæddi hópurinn hádegisverð með keppendum og fylgdarliði.

Myndir með frétt