Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Yfirlýsing frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands

11.01.2018

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) harmar mjög að einstaklingar innan vébanda þess hafi þurft að þola ofbeldi í tengslum við íþróttastarf. ÍSÍ fordæmir með öllu allt ofbeldi í starfsemi íþróttahreyfingarinnar enda er slík hegðun óásættanleg og ólíðandi.

Umræðan sem fram hefur farið um allan heim undir merkinu #metoo hefur beint athyglinni að víðfeðmu ofbeldi gagnvart konum um allan heim og þá oft í krafti valds eða stöðu þess sem því beitir. 
ÍSÍ fagnar þeirri umræðu sem fylgt hefur #metoo herferðinni og þakkar þeim einstaklingum sem þar hafa komið fram með frásagnir sínar fyrir frumkvæðið og hugrekkið sem þeir hafa sýnt, með því að skýra frá þessum alvarlegu málum og vekja upp nauðsynlega umræðu um vandann. ÍSÍ er nú að leita leiða til að tryggja þeim sem orðið hafa fyrir alvarlegu ofbeldi í tengslum við íþróttastarf faglega aðstoð.
Það er og hefur verið markmið íþróttahreyfingarinnar að tryggja öryggi, jafnrétti og jafnræði þeirra sem iðka og starfa innan íþróttahreyfingarinnar. Þau skilaboð sem fram hafa komið með frásögnum íslenskra kvenna um ofbeldi innan hreyfingarinnar á Íslandi hafa sýnt að ástæða er til að gera betur.

Íþróttahreyfingin mun ekki sitja aðgerðarlaus hjá varðandi þann vanda sem birst hefur gegnum #metoo herferðina og er þegar hafin vinna við að móta aðgerðir sem gagnast geta hreyfingunni í baráttunni gegn ofbeldi. 
Skilaboðin eru einföld: Ofbeldi verður ekki liðið!

Nánari upplýsingar um forvarnir og fræðslu má finna hér.