Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
26

Baráttan gegn ofbeldi

21.12.2017

Mikil umræða hefur átt sér stað um kynbundið ofbeldi í íslensku þjóðfélagi undanfarnar vikur. Sumir vilja meina að byltingu hafi verið hrundið af stað. Margt misjafnt komið upp á yfirborðið og ljóst er að víða er pottur brotinn, svo ekki sé meira sagt. Íþróttahreyfingin er þar ekki undanskilin enda stór og víðfem hreyfing sem endurspeglar allt þjóðfélagið. Það er ljóst að þöggun hefur átt sér stað innan okkar hreyfingar sem og annars staðar og vald verið misnotað. Eftir sitja fórnarlömb með sár á sálinni og laskaða sjálfsmynd. En þögnin hefur verið rofin og það er okkar allra að koma því til skila að ofbeldi verði hvergi liðið. Ekki heldur í íþróttahreyfingunni. Við berum öll ábyrgð á að verja börn og unglinga fyrir kynferðislegu áreiti og ofbeldi og hefur athygli íþróttahreyfingarinnar hingað til beinst að mestu að þeirri baráttu. Með umræðunni um kynbundið ofbeldi sem fram hefur farið undanfarnar vikur og ekki síst í kjölfar máls úr íþróttahreyfingunni sem nýlega kom upp á yfirborðið og hlaut mikla umfjöllun í fjölmiðlum, hefur athyglin jafnframt beinst að ofbeldi gegn eldri iðkendum.

Við berum einnig ábyrgð á að íþróttafélögin séu öruggur staður þar sem þjálfarar, sjálfboðaliðar, börn og unglingar geta hist og upplifað gleði og samheldni. Í íþróttahreyfingunni taka fleiri börn og unglingar þátt en í nokkurri annarri starfsemi hér á landi ef skólastarfið er undanskilið. Á Íþróttaþingi 2013 var leitt í lög ÍSÍ ákvæði sem bannar að ráða til starfa einstaklinga sem fengið hafa refsidóma vegna kynferðisbrota og á það jafnt við um launaða starfsmenn og sjálfboðaliða. Þetta ákvæði er vörn í baráttunni gegn þessum brotum en sú vörn er ekki fullkomin enda þekkjast slíkir afbrotamenn ekki af útlitinu og sakavottorð geta ekki um slík brot nema í 5 ár eftir að afplánun lýkur.

Okkur í íþróttahreyfingunni er því vandi á höndum. Langmestur hluti þjálfara, stjórnenda, starfs-manna og sjálfboðaliða innan hreyfingarinnar eru starfi sínu vaxnir og vinna störf sín af miklum áhuga og af alúð. Þeir hafa valið að taka þátt í íþróttastarfi vegna ánægju sinnar við að vinna með börnum og unglingum og af áhuga fyrir íþróttum. Einstaklingar með óeðlilegar hvatir í garð barna og unglinga laðast hins vegar að umhverfi þar sem þau halda sig og þar eru íþróttafélög og íþróttasvæði engin undantekning.

Á sama tíma og allt ofbeldi er fordæmt þá má það heldur ekki gerast að íþróttastarfið verði litað tortryggni. Það getur verið vandasamt að feta veg jafnvægis en við sem erum í fararbroddi hreyfingarinnar teljum að lausnin geti meðal annars falist í að ráðast að rót vandans með fræðslu, opinni og hreinskilinni umræðu og að við höldum öll vöku okkar í starfi hreyfingarinnar til að lágmarka áhættuna.
ÍSÍ hefur gefið út gagnlegan bækling sem ber heitið Kynferðislegt ofbeldi í íþróttum – Forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum og unglingum í íþróttum. Eins er aðgengilegt á vefsíðu ÍSÍ margvíslegt fræðsluefni sem hægt er að nota í þessu samhengi, svo sem hegðunarviðmið ÍSÍ, siðareglur, viðbragðsáætlun við óvæntum atburðum og eyðublað um samþykki um uppflettingu í sakaskrá. Haldinn hefur verið upplýsingafundur með starfsfólki Íþróttamiðstöðvarinnar í Laugardal og sérsambanda ÍSÍ, þar sem Hafdís Inga Hinriksdóttir starfsmaður Bjarkarhlíðar hélt fræðsluerindi um birtingarmyndir og forvarnir gegn kynferðislegu áreiti og ofbeldi í íþróttum. Við munum halda áfram að þróa forvarnir með sérsamböndunum en mismunandi íþróttagreinar geta kallað á mismunandi nálgun gagnvart ofbeldi af þessu tagi, einbeita okkur að því að bæta starf íþróttahreyfingarinnar og efla forvarnir, með alla aldurshópa í huga.

Með sameiginlegu átaki getum við gert umhverfi íþróttahreyfingarinnar enn öruggara en það er í dag en til þess þurfum við að standa saman í baráttunni gegn hvers kyns ofbeldi og áreiti.