Íþrótta- og tómstundasetur fyrir yngstu börnin heillavænlegt
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) standa saman að vefsíðunni Sýnum karakter. Vefsíðan er aðallega ætluð þjálfurum og íþróttafélögum.
Reglulega skrifa góðir gestir pistla á síðuna og deila þannig sinni reynslu í íþróttaheiminum. Hlynur C. Guðmundsson yfirþjálfari frjálsíþrótta í Aftureldingu skrifaði nýjasta pistilinn en hann fjallar um mikilvægi íþrótta- og tómstunda fyrir börn á fyrstu stigum grunnskóla.
„Ég er sannfærður um að ungmenni búi að þeirri þekkingu á íþróttum sem þau fengu í æsku. Minni líkur eru á því að ungmenni leiðist út á óæskilegar brautir seinna meir, hvað þá að þau brjóti af sér, ef þau stunda skipulagt íþrótta- eða tómstundastarf. Frístundakynning í æsku eykur líkurnar á því að ungmenni stundi heilbrigðari lífsstíl en ella“, segir Hlynur. Hér má lesa nýjasta pistilinn á vefsíðu Sýnum karakter eftir Hlyn.
Verkefnið Sýnum karakter er hugsað sem verkfæri fyrir þjálfara til að hlúa að og efla andlega og félagslega þætti hjá börnum og unglingum. Mikilvægi þjálfarans er sett í fókus og einblínt með nýstárlegum hætti á þann jákvæða ávinning sem hlýst af íþróttaiðkun umfram líkamlega, s.s. áhugahvöt, félagsfærni, sjálfstraust, einbeitingu, leiðtogahæfni og markmiðasetningu. Á vefsíðu Sýnum karakter eru nú þegar hinar ýmsu greinar og viðtöl við þjálfara og afreksíþróttafólk þar sem helsta umfjöllunarefni er efling andlegra og félagslegra þátta í gegnum þjálfun.
Verkefnið Sýnum karakter byggir á Framtíðinni, leiðarvísi í þjálfun barna og ungmenna sem dr. Viðar Halldórsson hefur þróað í mörg ár með það fyrir augum að finna styrkleika íþróttafólks. Tilgangur Framtíðarinnar er að stuðla að faglegu starfi innan félaga með því að stefna að hámarksárangri í þjálfun hugarfarslegra og félagslegra þátta. Viðar er lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands og einn helsti sérfræðingur landsins á sviði íþrótta. Hann hefur unnið eftir aðferðafræðinni með einstökum félögum og landsliðum í íþróttum. Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, íþróttasálfræðingur og sviðsstjóri á íþróttasviði Háskólans í Reykjavík, og dr. Viðar Halldórsson eru höfundar að efninu í verkefninu Sýnum karakter.
ÍSÍ og UMFÍ hvetja sambandsaðila, héraðssambönd og íþróttafélög til að skoða vefsíðuna Sýnum karakter.
Ef þig langar að deila þinni reynslu á vefsíðunni er tilvalið að senda ritstjórn Sýnum karakter línu á alvar@isi.is eða umfi@umfi.is.
Vinnum saman og Sýnum karakter!