Forseti Íslands afhenti verðlaun í netratleik Forvarnardagsins 2017
Þann 4. október sl. fór Forvarnardagur forseta Íslands fram. Dagurinn er helgaður þremur heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.
Netratleikur Forvarnardagsins fer fram í október ár hvert, en leikurinn snýst um ferðalag um vefsíður Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Skátanna og Ungmennafélags Íslands. Í leiknum þarf að finna rétt svör og fræðast um starfsemi félaganna um leið. Þann 25. nóvember sl. var dregið úr nöfnum þeirra sem tóku þátt og fór fram verðlaunaafhending við athöfn á Bessastöðum. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti sex vinningshöfum verðlaun.
Bakhjarl Forvarnardagsins er lyfjafyrirtækið Actavis og flutti Valur Ragnarsson, framkvæmdastjóri Medis, ávarp fyrir hönd þess. Einnig voru viðstaddir fulltrúar aðila sem standa að verkefninu en það eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Rannsóknir og greining, Reykjavíkurborg, Samband sveitarfélaga, Skátarnir og UMFÍ. Í ávarpi minnti forseti á gildi þess fyrir ungt fólk að njóta lífsins án fíkniefna; einnig þakkaði hann þeim sem unnið hafa með embætti forseta að þessu verkefni á liðnum árum.
Vefsíða Forvarnardagsins er forvarnardagur.is.