Skautasamband Íslands hlýtur styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ
Skautasambandið hefur unnið markvisst að því að efla afreksstarf innan sérsambandsins og á nú í fyrsta skipti þrjá senior skautara sem eru að stefna á þátttöku á Evrópumeistaramóti fullorðinna, en til þess þarf að ná ákveðnum lágmörkum. Sambandið hefur skilgreint alþjóðleg verkefni og mót í mismunandi flokka og er árlega verið að senda keppendur á Junior Grand Prix mót, Norðurlandamót og ISU mót, þ.e. erlend mót á vegum alþjóðasambandsins. Er með þátttöku verið að vinna að því að ná lágmörkum á enn stærri viðburði sem er mikilvægt í framþróun íþróttarinnar hérlendis. Íþróttin býr við mikið aðstöðuleysi ef horft er til þess tímafjölda sem íslenskir skautarar hafa til æfinga á svelli og hefur það áhrif á afreksstarf og umfang íþróttarinnar. Styrkur Afrekssjóðs ÍSÍ skiptir miklu máli gagnvart undirbúningi og þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og hjálpar til við að efla afreksstarf innan sérsambandsins.
Á myndinni má sjá þau Guðbjörtu Erlendsdóttur, formann ÍSS og Lárus L. Blöndal, forseta ÍSÍ.