Ísland fyrirmynd í forvarnarstarfi
Tólf manna sendinefnd frá Matanuska Susitna Borough í Alaska átti fund með framkvæmdastjóra ÍSÍ og framkvæmdastjóra ÍBR í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í gær. Sendinefndin er hér á landi til að kynna sér hvernig staðið er að uppeldi barna- og unglinga og kynna sér forvarnarstarf hvers konar. Í Alaska og Matanuska Susitna Borough er mikil notkun vímuefna, há tíðni sjálfsvíga og mikið þunglyndi meðal ungmenna. Þau höfðu heyrt af „Íslenska módelinu“.
Árið 1997 fór hópur félagsvísindafólks, stefnumótunaraðila og fólks sem starfaði með börnum og ungmennum að setja fram stefnu og starf, byggt á rannsóknum, til að vinna gegn vímuefnaneyslu ungmenna sem þá var ört vaxandi vandamál hér á landi. Þetta kemur fram á vefsíðu ICSRA (www.rannsoknir.is) Sú vinna leiddi af sér forvarnarlíkan sem gengur undir nafninu "Íslenska módelið" og byggir á samstarfi fjölmargra hluteigandi aðila, t.a.m. foreldra, kennara, félagsmiðstöðva, íþróttahreyfingarinnar og fleiri aðila í nærumhverfi barna og ungmenna. Þetta líkan hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og voru þessir aðilar frá Alaska áhugasamir um þann góða árangur sem náðst hefur hér á landi í forvörnum.
Heimsókn sendinefndarinnar til ÍSÍ og ÍBR var að fá upplýsingar um hlutverk og skipulag íþróttahreyfingarinnar, barna- og unglingastarf og starf íþróttafélaganna. Auk þess að fá kynningu á starfi íþróttahreyfingarinnar, þá skoðaði sendinefndin íþróttamannvirki í Laugardal.