Að njóta og lifa - Forvarnardagurinn 2017
Í dag, 4. október, er Forvarnardagur forseta Íslands. Í tilefni af deginum heimsótti Guðni Th. Jóhannesson forseti tvo skóla; Hólabrekkuskóla í Breiðholti og Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, fylgdi forsetanum í skólana ásamt föruneyti frá ÍSÍ.
Dagurinn er helgaður þremur heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu. Forsetinn ræddi við nemendur skólanna um þessi heillaráð: Að stunda skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, að verja klukkustund á dag með fjölskyldu og að bíða sem lengst með að neyta áfengis. Forsetinn heimsótti kennslustofur í ýmsum greinum og svaraði fjölmörgum fyrirspurnum nemenda um margvísleg málefni. Það má með sanni segja að forsetinn hafi náð vel til nemenda, en hann deildi sinni eigin reynslu og lífsviðhorfum með þeim.
Bróðursonur Guðna forseta er Jói P., sem á eitt vinsælasta lag landsins „Ég vil það“ ásamt vini sínum Króla. Í laginu er dregin upp gleðin sem fylgir fíkniefnalausu lífi. Guðni hefur dálæti á laginu og las meðal annars brot úr texta lagsins. „Það er gott og gaman að lifa lífinu lifandi, án þess að ánetjast áfengi, rafrettum, neftóbaki og hvað þetta heitir nú allt saman,“ sagði Guðni. „Við skulum ekki búa til heim hörmunga og segja: Krakkar, ekki drekka, ekki dópa, því þá verður líf ykkar helvíti á jörð. Horfið frekar á þetta hinsegin. Það er svo gaman að lifa lífinu lifandi, þið viljið vera þið sjálf. Í guðanna bænum, ekki láta þá eitthvað annað taka líf ykkar yfir sem gerir ykkur ómögulegt að láta drauma ykkar rætast. Verum glöð að njóta og lifa, eða njódda og liffa“ sagði hann og hvatti áfram nemendur skólans sem viðstaddir voru kynninguna. Fór þetta vel í nemendur og vakti upp gleði og hlátrasköll.
ÍSÍ hefur verið samstarfsaðili Forvarnardagsins frá upphafi verkefnisins og er stolt af því að styðja við þetta öfluga forvarnarverkefni, en þetta er nú í tólfta sinn sem Forvarnardagur forseta Íslands er haldinn. Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ segir daginn mikilvægan hluta af forvarnarstarfsemi. „Samstarf forseta Íslands og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands ásamt öðrum stuðningsaðilum hefur skilað góðum árangri. Mikilvægi skipulagðrar íþróttastarfsemi er gríðarlegt eins og tölur sýna, en neysla ungmenna á vímuefnum og áfengi hefur stórlega minnkað frá því að þessu verkefni var hrundið af stað. Mikilvægt er að hafa þessi þrjú heillaráð í huga, ekki bara á Forvarnardaginn sjálfan heldur alla daga ársins.“
Vefsíða Forvarnardagsins er forvarnardagur.is
Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er stutt af lyfjafyrirtækinu Actavis.