Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Krakkar í Glerárskóla taka þátt í Göngum í skólann

28.09.2017

Verkefnið Göngum í skólann hófst 6. september og lýkur 4. október. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. 

Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Göngum í skólann hér
.

Glerárskóli á Akureyri hefur gert víðreist og farið í margar gönguferðir innan Akureyrar í tilefni af Göngum í skólann 2017. Nemendur í 5. bekk fóru í gönguferð niður í Kvenfélagslund sem er útivistarsvæði skólans. Bjart var í veðri og mikil gleði í gönguhópnum. Kennarar fræddu nemendur um umhverfismál og gagnsemi virks ferðamáta ásamt því að taka hressandi æfingar á grasflötinni. Lögð var áhersla á hópefli og samvinnu ásamt því að rætt var um hvernig „hið fullkomna skólasamfélag“ væri í þeirra augum.

Þá fór 10. bekkur í göngutúr til að skoða áhrif mannsins á náttúruna og athuguðu þau sérstaklega Glerá og umhverfi hennar. Þau gengu upp með ánni til að skoða hvar og hvernig maðurinn hefur sett mark sitt á umhverfi hennar. Þá voru brýrnar yfir hana taldar og mynd tekin á gömlu brúnni yfir Glerá við það tækifæri. Þá hefur einnig verið í gangi hjólavika í íþróttum dagana 11.-15. september hjá 5.-10. bekk og farið var í marga mislanga hjólreiðatúra því tengdu. Þeir sem ekki áttu hjól fengu þau lánuð og að sjálfsögðu lagði enginn af stað án þess að vera með hjálm á höfðinu.

Þá var birt á Facebook-síðu BeActive Iceland glæsilegt myndband sem tekið var upp á setningarhátíð Göngum í skólann sem fór fram í Víðistaðaskóla þann 6. september.

Hér má sjá myndband frá setningarhátíð Göngum í skólann í Víðistaðaskóla.

Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.

Á síðasta ári tóku milljónir barna í yfir 40 löndum viðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hér á landi voru um 70 skólar skráðir til leiks á síðasta ári og hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt í gegnum árin, en fyrsta árið voru þátttökuskólar 26 talsins. 

Verkefnið er orðið að árlegum viðburði í mörgum skólum og býður upp á lærdómsríka og skemmtilega leið fyrir nemendur til að fræðast um umferðarreglur, öryggi og umhverfismál.

Að Göngum í skólann verkefninu standa eftirtaldir aðilar: Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Samgöngustofa, Embætti Landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Heimili og skóli og Slysavarnarfélagið Landsbjörg.

 

Myndir með frétt