Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Norrænn fundur íþrótta- og ólympíusamtaka

12.09.2017

Árlegur fundur íþróttasamtaka og ólympíunefnda á Norðurlöndum fór fram í Færeyjum dagana 8.-10. september. Íþróttasamband Færeyja var gestgjafi fundarins og var skipulag og framkvæmd hans til fyrirmyndar. Dagskrá fundarins var þétt skipuð erindum og umfjöllunum um sameiginleg hagsmunamál samtakanna sem og þær áskoranir sem norræn íþrótta- og ólympíusamtök standa frammi fyrir í dag og í framtíðinni. Fjallað var meðal annars um jafnrétti, skipulag íþróttahreyfingarinnar, hagræðingu úrslita í íþróttum og stöðu lyfjaeftirlits.

Á fundinum var samþykkt að skipa vinnuhóp til að skoða möguleikana á því að refsingar vegna hagræðingu úrslita í íþróttum í einu af viðkomandi löndum hafi sama gildi á öllum Norðurlöndunum. Með því væri komið í veg fyrir að t.d. íþróttamenn sem hafa verið dæmdir hér á landi vegna hagræðingar úrslita í íþróttum geti farið með þann dóm til á milli landa og haldið áfram sínum ferli eins og ekkert hafi í skorist.  Nefnd þessi mun starfa næst árið og koma með tillögur um skipulag og framkvæmd þessara möguleika á næsta norræna fund sem haldinn verður í Svíþjóð í september 2018.

Dr. Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur hélt erindi á fundinum um íþróttir og andlega líðan og í framhaldi af hennar innslagi kom dagskrárliður þar sem fjallað var um möguleikana á að gera samnorrænar rannsóknir um mál er varða íþróttahreyfinguna. Samþykkt var að skipa vinnuhóp til að skoða málið betur fram að næsta fundi.

Fundinn sóttu Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Sigríður Jónsdóttir varaforseti, Hafsteinn Pálsson ritari, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri, Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri og Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ.  

Myndir með frétt