Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Eyof 2017 - þriðja keppnisdegi lokið

26.07.2017

Þá er þriðja keppnisdegi lokið á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Györ í Ungverjalandi. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir keppti í undanriðlum 200 metra hlaups. Þar tryggði hún sig inn í milliriðla með því að verða önnur í sínum riðli á tímanum 24,77. Í undanúrslitum varð Guðbjörg þriðja í sínum riðli á tímanum 24,57. Kemur hún inn í úrslitin með sjötta besta tímann úr milliriðlunum. Í þrístökki stökk Helga Margrét Haraldsdóttir 11,57 sem er bæting á hennar besta árangri.

Í áhaldafimleikum stúlkna var keppt í fjölþraut og liðakeppni. Stúlkurnar okkar urðu í 22. sæti liðakeppninnar með 93.35 stig. Í fjölþrautinni varð Sonja Ólafsdóttir efst með 47.50 stig (38. sæti), Margrét Lea Kristinsdóttir var með 45.70 stig (57. sæti) og Tinna Teitsdóttir með 42.65 stig (74. sæti).

Í handknattleik drengja spiluðu drengirnir við Spánverja. Lokastaðan var 36-27 Íslandi í vil þar sem okkar piltar stungu af í seinni hálfleik. Markahæstur var Dagur Gautason með 10 mörk en allir útileikmenn íslenska liðsins skoruðu í leiknum. Ljóst er því orðið að íslenska liðið varð í þriðja sæti síns ríðils og spilar því um 5.-8. sæti á mótinu. Næsti leikur liðsins er á föstudaginn þar sem við mætum Dönum.

Á morgun fimmtudag keppir Patrik Viggó Vilbergsson í 400m fjórsundi og Viktor Forafonov í 100 m. skriðsundi. Í frjálsum íþróttum keppa þær Helga Margrét Óskarsdóttir í spjótkasti, Iðunn Björg Arnaldsdóttir í 1500 metra hlaupi, Helga Margrét Haraldsdóttir í 100metra grindahlaupi og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir í úrslitum 200 metra hlaups.

 

Myndir með frétt