Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

IOC fjallar um fæðubótarefni

21.06.2017

Nýverið fór fram þriggja daga fundur í höfuðstöðvum Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) um fæðubótarefni, áhrif þeirra á heilsu og frammistöðu íþróttafólks og hættuna á lyfjamisnotkun. Fundinn sátu leiðandi sérfræðingar á sviði læknisfræði og vísinda sem heilbrigðisráðið innan Alþjóðaólympíunefndarinnar (Medical and Scientific Commission) fékk til liðs við sig til að vekja athygli og móta stefnu á málefninu. Meðal sérfræðinga IOC í þessum málaflokki er Dr. Ron Maughan, en hann hélt erindi um þetta málefni í Háskólanum í Reykjavík í janúar sl. Erindi Ron má sjá hér á Vimeo-síðu ÍSÍ.

Aðaláhersla heilbrigðisráðsins hefur verið að vekja athygli á réttri næringu fyrir íþróttafólk í sambandi við að viðhalda góðri heilsu og ná hámarks frammistöðu í íþróttaiðkun. Á fundinum var lögð sérstök áhersla á áhrif fæðubótarefna á heilsu og frammistöðu íþróttafólks og hættuna á því að fæðubótarefni geti innihaldið menguð efni sem geta verið heilsuspillandi eða leitt til brota á alþjóðlegum lyfjareglum. Athygli var vakin á því að margt íþróttafólk notar fæðubótarefni að staðaldi rétt eins og almenningur og því þurfi að upplýsa íþróttafólk um mögulegar hættur.

Niðurstaða fundarins var:

• Mataræði hefur veruleg áhrif á frammistöðu íþróttafólks. Notkun fæðubótarefna kemur ekki í stað lélegs mataræðis.

• Það getur verið gagnlegt að taka inn ákveðin næringarefni ef skortur á þeim er greindur með læknisfræðilegum hætti og ekki er auðveldlega hægt að fá næringarefnin úr fæðu.

• Í ákveðnum aðstæðum gætu fæðubótarefni hugsanlega bætt frammistöðu eða haft heilsufarslegan ávinnig fyrir sumt íþróttafólk í sumum íþróttagreinum, ef ákjósanleg þjálfun, næring og endurheimt hafa þegar verið uppfyllt.

• Gæðaeftirliti í framleiðslu fæðubótarefna er ábótavant. Til eru fæðubótarefni sem innihalda annað en sagt er í innihaldslýsingu, þau virka ekki sem skyldi eða þau eru menguð.

• Íþróttafólk sem notar fæðubótarefni ætti alltaf að skoða vandlega virkni þeirra, hættuna á heilsufarslegum skaða vegna notkunar á þeim og möguleika þess að þau séu menguð og geti valdið afbrigðilegum niðurstöðum (adverse analytical finding).

• Vekja þarf enn meiri athygli á því að íþróttafólk þurfi að hugsa um heilsu sína og vera meðvitað um hugsanlegan skaða af notkun fæðubótarefna.

• Mælst er til þess að íþróttafólk leiti til fagaðila áður en neysla á fæðubótarefnum hefst.

Fréttina má lesa hér