Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

28. Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í dag

18.06.2017

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í tuttugasta og áttunda sinn í dag sunnudaginn 18. júní. Góð þátttaka var í hlaupinu en gera má ráð fyrir að um 10.000 konur hafi tekið þátt á yfir 80 stöðum um allt land og víða erlendis. Í kringum 2.000 konur hlupu í Garðabænum, 1.000 í Mosfellsbæ, 200 á Akureyri og rúmlega 200 konur hlupu í Reykjanesbæ.

Að vanda var boðið upp á mismunandi vegalengdir eða allt frá 900 m upp í 10 km. Mikil og góð stemning var hjá þátttakendum konum sem körlum, ungum sem öldnum. Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og lögð er áhersla á að allar konur komi í mark á sínum hraða. Þó svo að hlaupið hafi í upphafi verið ætlað konum eins og nafn þess gefur til kynna þá hafa karlmenn alltaf verið velkomnir í hlaupið. Það var því gaman að sjá hversu margir strákar tóku þátt í hlaupinu í dag.

Garðbæingar hafa haft þann sið að veita elsta þátttakanda hlaupsins viðurkenningu. Að þessu sinni var það Sólveig Alda Pétursdóttir sem er fædd 1925 sem fékk afhentan grip sem ÍSÍ og Stjarnan gáfu til minningar um Lovísu Einarsdóttir, íþróttakennara og upphafskonu Kvennahlaupsins. Mosfellingar gáfu að vanda öllum langömmum rós þegar að þær komu í mark.

Öldrunarheimili víðsvegar um land hafa boðið sínu heimilisfólki að taka þátt í Kvennahlaupinu í vikunni sem er að líða. Mikil ánægja er meðal heimilisfólks með þetta framtak og kapp er lagt í að virkja alla til þátttöku. Karlmennirnir hafa þá gjarnan tekið á móti konunum og veitt þeim verðlaunapeninga.


Hér má finna nokkrar myndir frá Sigurði Svanssyni // SAHARA

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands þakkar öllum þátttakendum fyrir þátttökuna í ár.