GSSE 2017: Silfur í götuhjólreiðum og nýtt Íslandsmet í bogfimi
Í dag hófst keppni í öllum greinum nema einni á Smáþjóðaleikunum í San Marínó. Keppni í júdó hefst á morgun, miðvikudaginn 31. maí.
Í dag er keppt í blaki, tennis, borðtennis, sundi, frjálsíþróttum, hjólreiðum, skotíþróttum, bogfimi og bowls. Ísland á keppendur í öllum greinum nema bowls.
Hjólreiðar
Í götuhjólreiðum kvenna náði Erla Sigurlaug Sigurðardóttir öðru sæti. Ágústa Edda Björnsdóttir hafnaði í áttunda sæti, Ása Guðný Ásgeirsdóttir í tólfta og Kristín Edda Sveinsdóttir í því þrettánda. Silfurverðlaun Erlu eru fyrstu verðlaun Íslands á Smáþjóðaleikunum 2017.
Besta árangri í götuhjólreiðum karla náði Óskar Ómarsson. Hann hafnaði í sjötta sæti. Anton Örn Elfarsson hafnaði í 10. sæti, Birkir Snær Ingason í 24. sæti og Guðmundur Róbert Guðmundsson í 25. sæti.
Sund
Sundfólkið okkar hefur staðið í ströngu ferðalagi, ásamt körfuboltahópnum, sl. daga. Eftir stuttan svefn í nótt þurfti sundfólkið að keppa í undanrásum snemma í morgun. Það komust allir Íslendingarnir sem kepptu í undanrásum í fyrstu greinunum áfram í úrslitin. Eygló Ósk Gústafsdóttir, Hrafnhildur Lúthersdóttir og Bryndís Hansen fengu besta tíma í sínum greinum.
Eygló Ósk náði besta tímanum í 200 metra baksundi, 2:23,82 mínútur. Íris Ósk Hilmarsdóttir varð í fimmta sæti á 2:28,64 mínútum. Hrafnhildur Lúthersdóttir náði besta tímanum í 200 m fjórsundi, 2:19,85 mínútur. Sunneva Dögg Friðriksdóttir varð sjötta á 2:28,60 mínútum. Bryndís fékk besta tímann í 100 m skriðsundi, 57,66 sekúndur. Eygló Ósk varð önnur á 58,48 sekúndum.
Aron Örn Stefánsson komst í úrslit í 100 m bringusundi en hann synti á 52,96 sekúndum, sem var sjöundi besti tíminn.
Bogfimi
Í undankeppni kvenna í bogfimi með trissuboga varð Helga Kolbrún Magnúsdóttir efst í kvennaflokki, en Astird Daxbock og Margrét Einarsdóttir verma sjötta og sjöunda sæti.
Í undankeppni karla í bogfimi með sveigboga er Sigurjón Atli Sigurðsson í sjötta sæti, efstur Íslendinganna. Hann setti nýtt Íslandsmet, 630 stig. Þar á eftir koma Guðmundur Örn Guðjónsson og Haraldur Gústafsson, í tólfta og fimmtánda sæti.
Síðar í dag er undankeppni karla með trissuboga og kvenna með sveigboga en úrslitakeppnin í þessum greinum hefst á fimmtudaginn.
Tennis
Í tennis kepptu Anna Soffía Gronholm og Hera Björk Brynjarsdóttir. Þær töpuðu báðar í fyrstu umferð í dag og eru því úr leik í einliðaleik. Anna Soffía tapaði fyrir Judit Alana Cartana frá Andorra í tveimur settum, 6:4 og 7:6. Hera Björk tapaði fyrir Fransesca Curmi frá Möltu einnig í tveimur settum, 6:0 og 6:2.
Fleiri myndir má sjá á myndasíðu ÍSÍ.