Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Ný reglugerð Afrekssjóðs ÍSÍ - Konur í meirihluta í stjórn sjóðsins

12.05.2017

Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti á fundi sínum í gær nýja reglugerð um Afrekssjóð ÍSÍ.  Með undirritun á samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið þann 28. júlí 2016 um stóraukið framlag í sjóðinn gjörbreyttist hlutverk hans sem kallaði á endurskoðun á Afreksstefnu ÍSÍ og regluverki sjóðsins.  Á haustmánuðum 2016 skipaði framkvæmdastjórn ÍSÍ vinnuhóp til að endurskoða reglur Afrekssjóðs ÍSÍ.  Vinnuhópurinn leitaði til fjölmargra aðila innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi, sem og aðila búsetta erlendis sem hafa mikla þekkingu á alþjóðlegu afreksíþróttastarfi og skilaði vinnuhópurinn af sér skýrslu með ítarlegum tillögum í byrjun mars sl.

Á grundvelli tillagna vinnuhópsins hefur framkvæmdastjórn ÍSÍ unnið að nýrri reglugerð um Afrekssjóð ÍSÍ, en sú vinna hefur falið í sér aðkomu Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ sem hefur fundað með fulltrúum sambandsaðila og kynnt hugmyndir varðandi nýja Afreksstefnu ÍSÍ sem og drög að nýrri reglugerð Afrekssjóðs ÍSÍ. 

73. Íþróttaþing ÍSÍ fór fram um síðustu helgi og á þinginu lágu fyrir tillögur um uppfærða Afreksstefnu ÍSÍ sem og ályktun er snéri að vinnu ÍSÍ að mótun nýrrar reglugerðar.  Báðar tillögurnar voru ræddar í sérstakri nefnd á þinginu og fóru nánast óbreyttar í gegnum þá umræðu, sem gefur til kynna að hin mikla vinna sem átti sér stað fyrir þing hafi skilað af sér tillögum sem sambandsaðilar geta verið sáttir við.

Á sama fundi var skipað í stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ og í fyrsta sinni í sögunni eru konur í meirihluta stjórnarmanna. Stjórnin er þannig skipuð: Lilja Sigurðardóttir formaður, 
Ása Ólafsdóttir varaformaður, Guðrún Inga Sívertsen, Páll Grétarsson, auk fulltrúa frá mennta- og menningarmálaráðuneyti sem skipaður verður síðar.

Nýju reglugerðina má lesa með því að smella hér.

Skýrslu vinnuhópsins má lesa með því að smella hér.

Afreksstefnu ÍSÍ má lesa með því að smella hér.