Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Vorfjarnámi nú lokið

28.04.2017Vorfjarnámi 1. og 2. stigs ÍSÍ í þjálfaramenntun er nú lokið. Fjarnámið hefur verið afar vinsælt undanfarin ár og alls luku 53 nemendur námi á stigunum tveimur að þessu sinni, þar af 38 á 1. stigi. Námið er allt í fjarnámi og vinna nemendur verkefni í hverri viku námsins og taka auk þess nokkur krossapróf. Nemendur vinna auk þess lokaverkefni í náminu sem er nokkuð stærra en önnur verkefni. Að venju komu nemendur frá fjölmörgum íþróttagreinum s.s. handknattleik, körfuknattleik, knattspyrnu, blaki, frjálsum íþróttum, fimleikum, kraftlyftingum, hjólreiðum, þríþraut, karate, borðtennis, golfi, skíðaíþróttum, skautaíþróttum, júdó og glímu. Nemendur eru búsettir mjög víða um landið og nýtist fjarnámskerfið afar vel í því samhengi.

Sérgreinahluta námsins taka nemendur hjá viðkomandi sérsambandi ÍSÍ. Allir nemendur 1. stigs sem luku námi nú fá sent þjálfaraskírteini á heimilisfang sem er staðfesting á náminu. Inn á það skírteini á svo öll menntun að fara, hvort sem um er að ræða nám á næstu stigum ÍSÍ eða sérgreinahluta hjá sérsambandi ÍSÍ. Einnig á þjálfunarreynsla og staðfesting á skyndihjálparnámskeiðum að fara inn á þetta sama skírteini.

ÍSÍ óskar þeim nemendum sem luku námi á stigunum tveimur að þessu sinni til hamingju með árangurinn og óskar þeim jafnframt velfarnaðar í því krefjandi en jafnframt skemmtilega starfi sem íþróttaþjálfun er. Næsta fjarnám á þjálfarastigum ÍSÍ verður í boði í sumar og mun væntanlega hefjast í júní. Fjarnámið verður auglýst á isi.is og helstu netmiðlum auk þess sem allar frekari upplýsingar eru gefnar af Viðari Sigurjónssyni skrifstofustjóra ÍSÍ á Akureyri á vidar@isi.is eða í síma 514-4000.