Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Hjólað í vinnuna á næsta leiti

21.04.2017

Nú fer að líða að verkefninu Hjólað í vinnuna, sem Almenningsíþróttasvið ÍSÍ heldur utan um, en verkefnið fer fram dagana 3.- 23. maí . Í Morgunblaðinu í dag má sjá greinina „Hjólað í vinnuna helmingar sjúkdóma“. Þar kemur fram, samkvæmt niðurstöðum fimm ára rannsóknar sem Háskólinn í Glasgow framkvæmdi, að það að hjóla til og frá vinnu minnki hættuna á krabbameini og hjartasjúkdómum um helming. Kostur hjólreiða væri meðal annars sá að það þyrfti engan viljastyrk til að sveifla sér á bak reiðhjóli eftir að hjólreiðar væru orðnar rútína. Einnig var sýnt fram á að það að ganga frekar en ferðast með almenningssamböndum eða bíl væri betra. Á rannsóknartímanum reyndust reglubundnar hjólreiðar til og frá vinnu minnka hættuna á andláti af hvaða ástæðu sem væri um 41%, af völdum krabbameins um 45% og hjartagalla um 46%. Einnig kom í ljós að því lengra sem hjólað er því meiri heilsufarslegur ávinningur. Ganga dró líka úr líkum á hjartaveiki, en þó aðallega hjá fólki sem gekk lengra en 10 km á viku. Fjallað er um rannsóknina í nýjasta hefti breska læknaritsins British Medical Journal. Í rannsókninni tóku þátt 250 þúsund manns sem dagsdaglega ferðuðust milli heimilis og vinnu.

ÍSÍ hvetur fólk til þess að skrá sig í Hjólað í vinnuna. Glæsilegir vinningar frá Erninum verða dregnir út í Popplandi daglega á meðan á verkefninu stendur. 

Hér má sjá upplýsingar um skráningu. 

Hér má finna ýmsar leiðbeiningar og skráningarblöð sem hægt er að prenta út og hengja upp t.d. á kaffistofunni.