Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Tryggvi endurkjörinn formaður AKÍS

28.03.2017

Ársþing Akstursíþróttasambands Íslands fór fram 18. mars síðastliðinn í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.
Tryggvi M. Þórðarson gaf áfram kost á sér sem formaður sambandsins og var hann sjálfkjörinn. Í stjórn sitja áfram Einar Gunnlaugsson, Sigurður Gunnar Sigurðsson, Jón Bjarni Jónsson, Ragnar Róbertsson og Helga Katrín Stefánsdóttir. Torfi Arnarson var auk þess kosinn í stjórn til tveggja ára. Í varastjórn voru kosnir Baldvin Hansson, Garðar Þór Garðarsson og Kristinn Snær Sigurjónsson.
Á þingið mættu fulltrúar frá níu íþróttafélögum sem stunda akstursíþróttir, auk fulltrúa frá Ungmennafélaginu Heklu sem stofnaði akstursíþróttadeild á síðasta ári.
Samþykktar voru nokkrar breytingar á lögum, keppnisreglum og reglugerð um keppnisráð og lagðar voru fram og samþykktar eftirtaldar reglugerðir:  Reglur fyrir fjölmiðlafólk í aksturskeppnum, Reglugerð um áfrýjunardómstól AKÍS, Reglugerð um dómnefndir AKÍS og Siðareglur um notkun samfélagsmiðla.

Ársþingið samþykkti tvær ályktanir, önnur fól stjórn AKÍS að vinna áfram að aukinni þátttöku kvenna í akstursíþróttum og hin laut að skilgreiningu íþróttavega. Nánari upplýsingar um samþykktir þingsins er að finna á heimasíðu AKÍS, www.akis.is.
 
Fulltrúi ÍSÍ á þinginu var Hafsteinn Pálsson, sem einnig gegndi starfi þingforseta.