Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.09.2024 - 12.09.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
11

Vinnuhópur um endurskoðun á reglum Afrekssjóðs ÍSÍ skilar af sér skýrslu

07.03.2017

Á haustmánuðum skipaði framkvæmdastjórn ÍSÍ vinnuhóp til að endurskoða reglur Afrekssjóðs ÍSÍ í framhaldi af undirritun samnings ÍSÍ við ríkisvaldið um stóraukið framlag til afreksíþróttastarfs.
Framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ mun hækka í áföngum úr 100 milljónum á fjárlögum 2016 í 400 milljónir á árinu 2019 og er því um fjórföldun að ræða.
Þetta þýðir gjörbreytingu á starfsemi Afrekssjóðs ÍSÍ og því nauðsynlegt að aðlaga reglur sjóðsins að þessum gjörbreyttu aðstæðum.

Á Formannafundi ÍSÍ þann 11. nóvember sl. var vinna þessa vinnuhóps kynnt og í framhaldinu var boðað til funda með fulltrúum sérsambanda, íþróttahéraða og annarra vegna þessa.

Vinnuhópnum var falið að skila af sér niðurstöðum fyrir 1. mars 2017 og hefur vinnuhópurinn lokið störfum, en skýrsla vinnuhópsins var kynnt fyrir framkvæmdastórn ÍSÍ þriðjudaginn 7. mars sl. og sama dag var formleg kynning fyrir fulltrúa sérsambanda og íþróttahéraða.

Í skýrslu vinnuhópsins er ítarlega gerð grein fyrir niðurstöðum vinnuhópsins, en einnig er fjallað um söguleg atriði sem tengjast þróun Afrekssjóðs ÍSÍ og afreksstyrkja íþróttahreyfingarinnar. Vinnuhópurinn leitaði til álitsgjafa sem hafa mikla þekkingu á afreksíþróttastarfi erlendis og má lesa margt um skoðanir þeirra í skýrslunni sem og um svör við viðhorfskönnun sem fulltrúar íþróttahreyfingarinnar svöruðu fyrr í vetur. Vinnuhópurinn ræddi við hátt í 200 aðila úr forystu íþróttahreyfingarinnar þá sex mánuði sem vinnuhópurinn var að störfum.

Niðurstöður vinnuhópsins eru fjölþættar og koma inn á atriði eins og sjálfstæði sjóðsins, gegnsæi og rökstuðning með úthlutunum, skilgreiningar á afrekum, áhersluþætti, skiptingu í afreksflokka, umsóknir og styrkveitingar, svo eitthvað sé nefnt. Ítarlega er fjallað um hagsmunamál íþróttafólks og fyrirkomulag á stjórnun afreksíþrótta á Íslandi, en til að efla enn frekar afreksíþróttir á Íslandi er þörf á að skerpa á fjölmörgum atriðum.

Í lokaorðum í skýrslu vinnuhópsins segir:

„Framkvæmdastjórn ÍSÍ og fulltrúar á Íþróttaþingi þurfa að taka umræðu um þessi mál og setja það í traustan farveg. Afar mikilvægt er, að þó að allir verði ekki sáttir hvað útkomu sinnar íþróttagreinar varðar, horfi forystufólk íþróttahreyfingarinnar á heildarhagsmunina – framgang og aukin árangur íslensk afreksíþróttafólks á alþjóðavísu og að afreksstarf á Íslandi styrkist og eflist til framtíðar."

Í vinnuhópnum sátu þau Stefán Konráðsson formaður Íþróttanefndar ríkisins og fyrrverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ, Dr. Þórdís Lilja Gísladóttir íþróttafræðingur, nýdoktor HÍ og fyrrverandi afrekskona í frjálsíþróttum og Friðrik Einarsson fyrrverandi formaður Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og fyrrverandi formaður Skíðasambands Íslands. Þá var Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ, fenginn til að starfa með hópnum.

Skýrsla vinnuhópsins var kynnt á blaðamannafundi í dag miðvikudaginn 8. mars að viðstöddum Lárusi L. Blöndal forseta ÍSÍ, Líneyju Rut Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ og fulltrúum vinnuhópsins, þeim Stefáni, Þórdísi og Andra.

Skýrsla - Vinnuhópur um endurskoðun á reglum Afrekssjóðs ÍSÍ.

Skýrsla - Vinnuhópur um endurskoðun á reglum Afrekssjóðs ÍSÍ - Ítarefni.

Myndir með frétt