Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25

ÍSÍ úthlutar afreksstyrkjum – Breytingaár framundan

05.01.2017

Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands samþykkti, fimmtudaginn 8. desember 2016, tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ að úthlutun fyrir árið 2017. Styrkveitingar ÍSÍ til sambandsaðila nema samtals rúmlega 150 milljónum króna að þessu sinni, en um 100 m.kr. verður úthlutað síðar á árinu 2017 og þá eftir nýjum reglum Afrekssjóðs sem verið er að vinna að.

Árið 2015 gaf ÍSÍ út skýrslu þar sem greindur var kostnaður við afreksíþróttastarf og þar kom fram að til þess að standa nærri þeim þjóðum sem við berum okkur jafnan saman við þyrfti árlega að vera hægt að úthluta um 650 m.kr. til afreksstarfs á Íslandi. Þær upphæðir voru varlega áætlaðar en taldar raunhæfar í samanburði við aðrar þjóðir, en heildarkostnaður landsliðsverkefna sérsambanda er þó margfalt hærri.
Þann 28. júlí 2016 var undirritaður tímamótasamningur við ríkisvaldið varðandi fjármögnun Afreksíþróttasjóðs ÍSÍ. Með samningnum hækkar framlag ríkisins til afreksíþrótta úr 100 m.kr. árið 2016 í 200 m.kr. fyrir árið 2017, 300 m.kr. fyrir árið 2018 og í 400 m.kr. fyrir árið 2019. Afrekssjóður ÍSÍ er annars fjármagnaður með hlutdeild úr tekjum íþróttahreyfingarinnar frá Íslenskri Getspá samkvæmt ákvörðun Íþróttaþings ÍSÍ.

Í ljósi þess að framlag til afreksíþróttastarfs stóreykst þá er nauðsynlegt endurskoða og móta hvernig þetta viðbótarfjármagn verði best nýtt til þess að bæta umhverfi afreksíþrótta á Íslandi með það að markmiði að efla íþróttalegan árangur Íslands.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ skipaði á haustmánuðum 2016 vinnuhóp til að að yfirfara úthlutunarreglur Afrekssjóðs ÍSÍ auk þess að skoða hvaða viðbætur og breytingar þarf að gera í samræmi við þær upplýsingar sem vinnuhópurinn aflar á meðan á starfi hans stendur. Vinnuhópurinn hefur leitað til hóps íþróttaþjálfara og aðila sem hafa starfað og starfa í afreksíþróttaumhverfi erlendis og mótað þannig hóp álitsgjafa auk þess að funda með fulltrúum sérsambanda og annarra eininga íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Niðurstöður úr þessari vinnu verða ljósar eigi síðar en 1. mars 2017 og munu málefni afreksíþrótta eflaust verða til umræðu á Íþróttaþingi ÍSÍ í maí 2017.

Í reglugerð Afrekssjóðs ÍSÍ er fjallað um kröfur um afreksstefnur sérsambanda og er lögð áhersla á að öll sérsambönd móti sér stefnu í afreksíþróttum sem hljóti umfjöllun og samþykki á sérsambandsþingi eða formannafundi sérsambands. Nánast öll sérsambönd hafa mótað sér slíka stefnu og/eða eru að vinna að henni og/eða endurbótum á núverandi stefnu. Þau sérsambönd hafa skilað inn áætlun um frekari vinnu við stefnumótun sambandsins og liggur fyrir að hjá mörgum þeirra þarf að samþykkja nýja stefnu á ársþingi í vor. Eru styrkveitingar ársins tengdar þeirri vinnu og með fyrirvara um að afreksstefna viðkomandi sérsambands hljóti samþykki sérsambandsþings.

Á undanförnum árum hefur stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ rætt ýmsar breytingar og horft til þeirra áherslna sem aðrar þjóðir og rannsóknir hafa sýnt fram á að skipti máli í afreksstarfi. Framkvæmdastjórn ÍSÍ endurskoðar árlega reglugerð fyrir sjóðinn og hafa skilgreiningar á styrkleikaflokkum og viðmiðum tekið breytingum auk þess sem að styrkupphæðir eru ekki lengur festar í reglugerð heldur háðar tillögum sjóðsstjórnar. Þannig er ekki verið að veita A, B og C styrki þótt að styrkleikaflokkun eigi sér stað í meðferð sjóðsins. Um einn styrk er að ræða til hvers sérsambands/íþróttanefndar ÍSÍ og lögð áhersla á að faglegt afreksstarf eigi sér stað hjá sérsamböndum/íþróttanefndum ÍSÍ. Með þessu er verið að koma til móts við sérsambönd og gefa stjórn sjóðsins möguleika horfa meira í afreksstefnur sérsambanda, útbreiðslu og afreksstig. Þá er opið fyrir það í reglugerðinni að hægt sé að greiða sem framfærslustyrk hluta af styrkupphæð sem skilgreind er vegna verkefna einstaklinga. Þar er lögð áhersla á að slíka greiðslur sé launþegagreiðslur þar sem slíkt skapar lýðréttindi fyrir íþróttafólkið.

Á árinu eru margir stórviðburðir á dagskrá eins og HM í handknattleik karla, úrslitakeppni EM í körfuknattleik karla og lokamót EM í knattspyrnu kvenna. Auk þess eru stórviðburðir í einstaklingsgreinum og komandi ár er sérstaklega mikilvægt varðandi undirbúning fyrir Vetrarólympíuleika 2018 sem og Paralympics 2018.
Til Afrekssjóðs ÍSÍ bárust umsóknir frá 26 sérsamböndum ÍSÍ. Hljóta öll þessi sambönd styrk vegna sinna landsliðsverkefna, þótt um misháar upphæðir sé að ræða. Sótt var um styrki til sjóðsins vegna verkefna 64 einstaklinga og er aðeins hluti þeirra verkefna styrktur, eða verkefni 12 íþróttamanna. Rétt er að leggja áherslu á að það eru sérsambönd sem hljóta styrki vegna verkefna tilgreindra íþróttamanna, en ekki íþróttamennirnir sjálfir. Þannig eru styrkir sjóðsins til sérsambanda vegna verkefna íþróttamanna fyrst og fremst hugsaðir vegna kostnaðar við þátttöku í mótum og keppnum og undirbúnings vegna þeirra.
Hæstu styrki fyrir árið 2017 hljóta þau sambönd sem eru með lið sem eru að taka þátt í lokamótum stórmóta. Þannig hlýtur Handknattleikssamband Íslands heildarstyrk að upphæð 28,5 m.kr. og Körfuknattleikssamband Íslands heildarstyrk að upphæð 18,5 m.kr. Sundsamband Íslands hlýtur heildarstyrk að upphæð kr. 13.550.000 og Frjálsíþróttasamband Íslands heildarstyrk að upphæð 12 m.kr. Þessi fjögur sérsambönd njóta samtals tæplega helming þeirrar upphæðar sem er til úthlutunar til sérsambanda að þessu sinni og þau 10 sérsambönd sem hljóta hæstu styrkina fá samanlagt um 80% af úthlutun sjóðsins.
Sjóðsstjórnin leggur áfram áherslu á að efla þjónustu fagteymis og fræðslu fyrir íþróttamenn sérsambanda. Þannig hljóta sérsambönd styrk vegna verkefna sem snúa að fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum frá skilgreindu fagteymi sérsambands og/eða ÍSÍ.

Í þessum tölum er verið að tala um heildarúthlutun til viðkomandi sérsambands en hún skiptist í einstaka tilfellum niður á verkefni liða/hópa sem og einstaklinga og er nánari útfærsla skilgreind í úthlutunarbréfi til sérsambanda og í samningum sem gerðir verða við sérsambönd.

Eins og áður kom fram er ljóst að frekari styrkjum verði úthlutað á árinu 2017 og mun úthlutun eiga sér stað að loknu Íþróttaþingi ÍSÍ, þegar framtíðaráherslur íþróttahreyfingarinnar varðandi afreksstarf eru ljósar og mótuð hefur verið ný reglugerð fyrir Afrekssjóð ÍSÍ sem tekur á þeim möguleikum sem stóraukið framlag ríkisins til sjóðsins felur í sér.

Úthlutun sjóðsins kynntu Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Guðmundur Ágúst Ingvarsson formaður Afrekssjóðs ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ og Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ, fimmtudaginn 5. janúar 2017 í fundarsölum ÍSÍ í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. 
Styrkveitingar Afrekssjóðs ÍSÍ 2017



Blaksamband Íslands (BLÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 4.400.000,-

Badmintonsamband Íslands (BSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 2.200.000,-

Borðtennissamband Íslands (BTÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-

Dansíþróttasamband Íslands (DSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 2.100.000,-

Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Anítu Hinriksdóttur og Ásdísar Hjálmsdóttur og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 12.000.000,-

Fimleikasamband Íslands (FSÍ)
Vegna landsliðsverkefna í áhaldafimleikum og hópfimleikum, verkefna Irina Sazonova og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 7.950.000,-

Golfsamband Íslands (GSÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 8.850.000,-

Hjólreiðasamband Íslands (HRÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.100.000,-

Handknattleikssamband Íslands (HSÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliða karla og kvenna, yngri landsliða og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 28.500.000,-


Íþróttasamband fatlaðra (ÍF)
Vegna landsliðsverkefna sambandsins, undirbúnings fyrir Paralympic Games 2018, verkefna Helga Sveinssonar og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 7.750.000,-

Íshokkísamband Íslands (ÍHÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliðs karla og kvenna, yngri landsliða og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 3.200.000,-

Skautasamband Íslands (ÍSS)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-

Júdósamband Íslands (JSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.600.000,-

Karatesamband Íslands (KAÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.600.000,-

Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliðs karla og kvenna, yngri landsliða og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 18.500.000,-

Keilusamband Íslands (KLÍ)
Vegna landsliðsverkefna, unglingalandsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.100.000,-

Kraftlyftingasamband Íslands (KRA)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Fanneyjar Hauksdóttur, Júlíans Jóhanns Karls Jóhannssonar, Viktors Samúelssonar og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 6.600.000,-

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliðs kvenna, yngri landsliða kvenna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 8.400.000,-

Landssamband hestamannafélaga (LH)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 2.200.000,-

Lyftingasamband Íslands (LSÍ)
Vegna landsliðsverkefna kvenna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.100.000,-

Skíðasamband Íslands (SKÍ)
Vegna landsliðsverkefna í alpagreinum, skíðagöngu og á snjóbrettum, undirbúnings fyrir Vetrarólympíuleikar 2018 og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 9.800.000,-

Skylmingasamband Íslands (SKY)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.700.000,-

Sundsamband Íslands (SSÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Hrafnhildar Lúthersdóttur, Eyglóar Óskar Gústafsdóttur, Antons Sveins Mckee og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 13.550.000,-

Skotíþróttasamband Íslands (STÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Ásgeirs Sigurgeirssonar og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 3.850.000,-

Tennissamband Íslands (TSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-

Þríþrautarsamband Íslands (ÞRÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-


Heildarúthlutun til sérsambanda ÍSÍ kr. 150.450.000,-


Myndir með frétt